9 Júní 2018 16:30
Það voru sannkölluð tímamót við Háskólann á Akureyri í dag þegar glæsilegur hópur lögreglumanna útskrifaðist frá skólanum, en þetta er fyrsti árgangur háskólamenntaðra lögreglumanna á Íslandi. Námið í lögreglufræðum hófst við Háskólann á Akureyri haustið 2016, en lengi hafði verið talað fyrir því að færa lögreglunámið á háskólastig. Strax varð mikill áhugi á hinu nýja námi og athygli vakti að konur voru í meirihluta þeirra sem skráðu sig til náms í lögreglufræðum. Það var afar jákvætt enda þarf lögreglan að endurspegla samfélagið og því er mjög mikilvægt að fá líka konur til starfa í lögreglunni. Rétt er að taka fram að lögreglumennirnir sem útskrifuðust í dag brautskráðust allir með starfsréttindi, en þeir fara nú til starfa víða um land. Stór hluti þeirra verður við vinnu hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en lögreglustjóri embættisins, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, var einmitt heiðursgestur á Háskólahátíðinni í dag og flutti ávarp við athöfnina.
 
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar öllum nýútskrifuðum, háskólamenntuðum lögreglumönnum innilega til hamingju með þennan merka áfanga um leið og hún býður þá hjartanlega velkomna til starfa hjá lögreglunni.