13 Desember 2022 13:09

Enn æsast leikar á HM í Katar, en undanúrslitin hefjast í kvöld og viðbúið er að einhver missi stjórn á skapinu ef úrslitin verða óhagstæð. Þetta er alvanalegt þegar tuðruspark er annars vegar og því fastir liðir að lögreglan sé kölluð til þegar slíkir stórviðburðir eru á dagskrá. Þetta var einmitt raunin í 8 liða úrslitum á HM um helgina, en þau voru sérstaklega spennandi og þurfti að grípa til framlengingar og vítaspyrnukeppni í tveimur leikjanna. Á ónefndu heimili í fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu bar spennan heimilisfólkið ofurliði þegar leikar stóðu sem hæst svo að íbúðin þeirra lék nánast á reiðskjálfi með tilheyrandi hrópum og köllum. Nágrannarnir vissu eðlilega ekki hvaðan á sig stóð veðrið og hringdu í lögregluna sem brást fljótt við, fór á vettvang og bjóst við hinu versta. Þegar á staðinn var komið hafði ástandið hins vegar róast, úrslitin voru ráðin eftir vítaspyrnukeppni og „stuðningsmennirnir“ búnir að ná áttum á nýjan leik. Frekari afskipti lögreglunnar voru því óþörf.