23 Maí 2020 10:00

Þau eru ófá símtölin til lögreglunnar þar sem fólk kvartar undan hávaða enda eiga þau sér stað flesta daga ársins og iðulega nokkrum sinnum á dag. Tilefni kvartananna er misjafnt, en hátt stillt tónlist er þar ofarlega á baugi. Allskonar framkvæmdir með tilheyrandi hávaða fær líka iðulega fólk til að hringja í lögregluna. Sama má segja um hávaðasöm rifrildi, en þá kunna eðlilega að vakna áhyggjur um að ofbeldi sé beitt. Það síðastnefnda virtist eiga við í ónefndu húsi í umdæminu nýverið og var lögreglan fljót á vettvang. Barið var valdsmannslega á útidyrahurðina hjá íbúunum þaðan sem hávaðinn barst, en sá sem tilkynnti um málið var mjög áhyggjufullur um það sem gekk á. Þegar opnað var blasti við lögreglumönnunum karlmaður á adamsklæðunum og var sá heldur hissa á þessari heimsókn laganna varða. Maðurinn var spurður hvort hann væri einn í íbúðinni og sagði hann svo ekki vera, en á bak við hann birtist kona og kom í dyragættina. Ekki var að sjá að neitt amaði að henni og þvert á móti virtist hún vera alsæl. Aðspurð um hávaðann sögðust þau hafa verið að stunda kynlíf og játuðu að því hefði fylgt nokkur hávaði. Ekki þótti ástæða til að leggja frekari spurningar fyrir skötuhjúin, en greinilegt var að þeim þótti koma lögreglunnar heldur vandræðaleg. Þau voru kvödd við svo búið og vinsamlegast beðin um að hafa lægra við iðju sína í húsinu og tóku skötuhjúin vel í tilmælin.