14 Ágúst 2006 12:00

Að jafnaði berst eitthvað af kvörtunum til lögreglunnar í Reykjavík vegna hávaða í heimahúsum. Þessi helgi var engin undantekning í þeim efnum en víða um borgina var fólk að gera sér glaðan dag. Það er hið besta mál svo framarlega sem hófs sé gætt og tillit tekið til nágranna. Stundum fer gleðskapurinn hins vegar úr böndunum og þá er lögreglan kölluð til.

Í allnokkrum tilfellum var fólk með drykkjulæti um helgina og einhverjir fengu að gista í fangageymslu lögreglunnar af þeirri ástæðu. Nú eins og stundum áður sló í brýnu á milli manna en pústrarnir voru ekki meiri en endranær. Vandræði vegna drykkjuskapar mátti greina á tilteknum stöðum í borginni en ekkert eitt hverfi sker sig úr í þeim efnum. Þótt fréttir fjölmiðla gefi stundum til kynna að vandræðin séu ávallt bundin við miðborgina að þá er það ekki raunin.