20 September 2022 11:49

Skráð voru 904 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í ágúst og fjölgaði þessum brotum töluvert á milli mánaða. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir ágúst 2022.

Tilkynningum um þjófnað fjölgaði á milli mánaða. Af þjófnaðarbrotum fjölgaði innbrotum mest á milli mánaða. Alls bárust 118 tilkynningar um innbrot í ágúst miðað við 85 tilkynningar í júlí. Það sem af er ári hafa þó borist um eitt prósent færri tilkynningar um innbrot en bárust að meðaltali fyrir sama tímabil síðustu þriggja ára á undan.

Alls barst 122 tilkynning um ofbeldisbrot í ágúst og fjölgaði þessum tilkynningum lítillega á milli mánaða. Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgaði einnig á milli mánaða. Í ágúst var tilkynnt um 16 kynferðisbrot, er það þónokkur fækkun tilkynninga miðað við síðustu mánuði á undan. Það sem af er ári hafa verið skráð um 21 prósent færri kynferðisbrot á höfuðborgarsvæðinu samanborið við meðaltal á sama tímabili síðustu þrjú ár á undan.

Alls bárust 11 beiðnir um leit að börnum og ungmennum í ágúst sem er fækkun á milli mánaða. Heilt yfir hafa borist um 34% færri beiðnir það sem af er ári miðað við síðustu þrjú ár á undan.

Tilkynningum um eignaspjöll fjölgaði á milli mánaða en tilkynningar um nytjastuld á vélknúnum ökutækjum voru álíka margar.

Skráðum fíkniefnabrotum fjölgaði á milli mánaða og voru fimm stórfelld fíkniefnabrot skráð í ágúst. Tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna fjölgaði á milli mánaða en tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur fækkaði.

Í mars voru skráð 746 umferðarlagabrot (að hraðamyndavélum undanskildum). Það sem af er ári hafa verið skráð um 16 prósent færri umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu en að meðaltali á sama tíma síðustu þrjú ár á undan.