12 Maí 2011 12:00

Honum hefur væntanlega verið illa brugðið manninum sem týndi nokkur hundruð þúsund krónum í peningum. Og að sama skapi hefur hann trúlega tekið gleði sína á ný þegar þeir komu aftur í leitirnar. Lögreglan frétti af málinu í morgun þegar hjón á áttræðisaldri höfðu samband og sögðust hafa fundið umslag á útivistarsvæði í borginni. Í því voru allir peningarnir og einnig kvittun með nafni eigandans. Peningarnir voru því næst sóttir til heiðurshjónanna og þaðan farið með þá á lögreglustöð. Síðan var haft samband við eigandann, mann á miðjum aldri, og kom hann á lögreglustöð í framhaldinu. Hann var að vonum þakklátur og skildi eftir fundarlaun sem lögreglan færði hinum heiðarlegu hjónum.