26 Maí 2008 12:00
Karl á þrítugsaldri trúði vart sínum eigin augum þegar hann kom á bifreiðastæði í miðborginni aðfaranótt sunnudags og fann ekki bílinn sinn. Maðurinn, sem er af erlendu bergi brotinn, hélt rakleitt á lögreglustöð og sagði farir sínar ekki sléttar. Þar var hann spurður nánar um málsatvik og varð þá ljóst að bílnum hafði verið stolið. Ökutæki mannsins reyndist sumsé bæði hafa verið ólæst og svo var bíllykillinn geymdur á milli framsætanna. Maðurinn sagði að hann hefði ávallt haft þennan háttinn á þann tíma sem hann hefði haft bíl til umráða á Íslandi. Honum var bent á að framvegis væri betra að læsa bílnum og hafa bíllykilinn ekki í augsýn. Hvort maðurinn lærir af reynslunni skal ósagt látið en hann lét þess sérstaklega getið hjá lögreglu að hann hefði átt von á öllu öðru en þessu. Hann hefði bókstaflega ekki trúað því að svona lagað gæti gerst á Íslandi.