20 Apríl 2010 12:00

Um áttatíu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu um síðustu helgi. Grófasta brotið var framið á Miklubraut á laugardagskvöld en þar mældist bíll á 135 km hraða og var viðkomandi ökumaður sviptur ökuréttindum á staðnum. Einnig var mikið um stöðubrot en lögreglan hafði afskipti af yfir hundrað ökutækjum vegna þessa. Þá voru fjarlægð skráningarnúmer af rúmlega tuttugu ökutækjum sem voru ýmist óskoðuð og/eða ótryggð. Allnokkrir ökumenn voru stöðvaðir fyrir þær sakir að nota ekki öryggisbelti og enn aðrir fyrir að tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað. Þá stöðvaði lögreglan nokkra ökumenn sem óku gegn rauðu ljósi.