14 Mars 2023 12:06

Ellefu ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Tilkynnt var um fimmtán líkamsárásir, þar af sex alvarlegar, og farið var í fjögur útköll vegna heimilisofbeldis. Nokkuð var um innbrot, m.a. í þrjú fyrirtæki og sömuleiðis í geymslur, auk þess sem brotist var inn í eina bifreið. Þá var tilkynnt um búðaþjófnaði og einn var handtekinn grunaður um að hafa stolið farsímum af gestum skemmtistaðar í miðbænum. Um helgina voru enn fremur fjarlægð skráningarnúmer af tuttugu og fimm ökutækjum, en þau voru ýmist ótryggð og/eða óskoðuð. Þá voru sex umferðarslys tilkynnt til lögreglu á sama tímabili. Á sunnudag var hleypt af einu skoti inni á krá í miðborginni. Engan sakaði, en aðili grunaður um verknaðinn var handtekinn í gærkvöld.