9 September 2021 11:26

Í samræmi við stefnu lögreglunnar á Austurlandi um gagnsæi og sýnileika hefur hún tekið saman helstu tölur um afbrot og verkefni fyrstu átta mánaða ársins og borið saman við sama tímabil áranna 2015 til 2020.

Fjöldi skráðra hegningarlagabrota fer lítillega niður frá árinu 2019. Brotin voru 87 árið 2019 og 77 árin 2020 og 2021.

Skráðum fíkniefnabrotum fjölgar úr 18 í fyrra í 27 í ár. Þau voru hinsvegar 43 talsins árið 2019. Umferðarlagabrotum fjölgar milli ára, úr 1.027 skráðum brotum í fyrra í 1.221 í ár. Hraðakstursbrot eru langflest umferðarlagabrota og þarf ekki að orðlengja hættu sem af þeim stafar. Lögregla hvetur ökumenn því sem fyrr til að gæta sérstaklega að ökuhraða og stuðla þannig að auknu umferðaröryggi.

Skráðum brotum vegna aksturs undir áhrifum áfengis fjölgar nokkuð milli ára meðan brotum vegna fíkniefnaaksturs fækkar. Ökumönnum sem gerst hafa sekir um að aka réttindalausir fækkar.

Brotum vegna notkunar farsíma, snjalltækja eða annarra raftækja við akstur fjölgar mikið milli ára sem og brotum vegna vanrækslu á notkun bílbelta. Þá fjölgar brotum umtalsvert frá árinu 2017 vegna ökutækja sem er ólöglega lagt.

Umferðaslysum það sem af er ári fjölgar lítillega frá árunum 2019 og 2020. Þau eru hinsvegar enn hlutfallslega fá ef miðað er við árin 2006 til 2018. (Tölur um umferðarslys eru frá árinu 2006 og þá fyrir allt árið 2006 til 2018.)

Skráðum heimilisófriðarmálum fækkar frá síðasta ári eftir talsverða fjölgun það ár.

Tölur lögreglu má finna hér.