3 Júní 2021 11:24

Í samræmi við stefnu lögreglunnar á Austurlandi um gagnsæi og sýnileika hefur hún tekið saman helstu tölur fyrstu fimm mánaða ársins og borið saman við sama tímabil áranna 2015 til 2020.

Fjöldi hegningarlagabrota er svipaður frá árinu 2019. Brotin voru 41 árið 2019, 42 árið 2020 og 44 í ár.

Fíkniefnabrotum fjölgar frá því í fyrra en eru svipuð í fjölda og árið 2019. Umferðarlagabrotum fjölgar umtalsvert. Hraðakstursbrot eru talsvert stórt hlutfall umferðarlagabrota og hvetur lögregla ökumenn því til að gæta sérstaklega að ökuhraða og stuðla þannig að auknu umferðaröryggi.

Skráðum brotum vegna aksturs undir áhrifum áfengis fjölgar lítillega milli ára. Brotum vegna fíkniefnaaksturs fækkar.

Þá fækkar skráðum brotum sem tengjast réttindaleysi við akstur. Brotum vegna notkunar farsíma, snjalltækja eða annarra raftækja við akstur fjölgar nokkuð sem og brotum vegna vanrækslu á notkun bílbelta. Ólöglegri lagningu ökutækja fjölgar allt frá árinu 2017.

Umferðaslys það sem af er ári eru svipuð og árin 2019 og 2020. Á þeim árum fækkaði slysum talsvert samanborið við fyrri ár. Haldi sem horfir mun fjöldi slysa á þessu ári því verða svipaður og 2019 og 2020. (Tölur um umferðarslys eru frá árinu 2006 og þá fyrir allt árið frá 2006 til 2018.)

Heimilisofbeldismálum fækkar lítillega frá síðasta ári.

Tölur lögreglu má finna hér.