8 Nóvember 2017 15:29

25 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku.   Þeir eru nú orðnir 2080 það sem af er ári og þar með fleiri en allt árið 2015 og nálgast óðum þann fjölda sem var á árinu 2016. Álagðar sektir vegna hraðakstursbrota nema nú rúmlega 116 milljónum króna það sem af er ári en flestir ökumenn brotlegir greiða sekt sína innan 30 daga frests sem þeim er veittur frá broti og fá þar með 25% afslátt af sektinni. 

4 voru stöðvaðir grunaðir um að aka undir áhrifum fíkniefna.  Í einu tilfellanna svaraði sýni jákvætt á THC og vísar þar með til kannabisneyslu.  Í sýnum tveggja komu fram 4 efni og 5 í sýni þess fjórða.  

Lögreglumenn fóru í eftirlit með rjúpnaveiðimönnum um liðna helgi með þyrlu Landhelgisgæslunnar.  Höfð voru afskipti af fjórum  einstaklingum við veiðar innan þjóðgarðsins á Þingvöllum sem veitt höfðu 3 rjúpur.  Hald var lagt á vopn þeirra og veiði.   Þá var rætt við aðra tvo sem voru utan þjóðgarðsins en þeir reyndust með sín mál í lagi.  Þyrlan þurfti síðan frá að hverfa vegna sjúkraflugs en búast má við fleiri slíkum ferðum til eftirlits með veiðimönnum auk þess sem lögreglan er nú vel búin bílum til aksturs um hálendið.

Fimm sinnum var tilkynnt um laus hross við vegi í umdæminu.  Þá ók ferðamaður á kind á þjóðveginum um Lyngdalsheiði.  Nokkuð tjón varð á bifreið hans og rollan drapst.