25 Janúar 2021 12:08

Öllum er ljóst að þegar fá kóronasmit greinast eru líkur á að menn freistist til að „teygja“ reglur aðeins en grunnurinn að því að ná utan um verkefnið er að nú haldi allir út.   Virðum reglurnar og gætum að persónubundnum sóttvörnum.   Þannig getum við þetta saman. Lögreglumenn hafa farið eftirlitsferðir á opinbera staði til að kanna hvort reglum um sóttkví sé fylgt.   Tilefni hafa gefist til athugasemda en mikill vilji hefur fundist hjá fólki til að standa sig og tryggja að ekki dreifist frekara smit um samfélagið.

Ökumaður bifreiðar sem stöðvaður var við eftirlit lögreglu  á Suðurlandsvegi í Rangárþingi þann 19. janúar s.l. er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.  Athygli lögreglumanna vakti megn kannabislykt í bílnum þegar rætt var við ökumanninn. Fíkniefni, í nokkru magni, fundust í bifreið hans við leit í henni sem og áhöld til neyslu á heimili viðkomandi. Hann gat litlar skýringar gefið á málinu og neitaði að hafa vitað um tilvist efnanna í bílnum.

19 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku. 2 þeirra á íbúðargötum þar sem leyfður hámarkshraði er 30 km/klst, annar í Hveragerði og hinn á Stokkseyri. Þrír voru kærðir fyrir að aka of hratt á Selfossi þar sem leyfður hámarkshraði er 50 km/klst og tveir voru stöðvaðir á vegarkafla þar sem 70 km/klst hraði er leyfður. Aðrir voru á 90 km/klst vegi, 7 þeirra í V-Skaftafellssýslu en sá sem hraðast ók mældist á 135 km/klst á Suðurlandsvegi í Flóa.

14 ökumenn voru kærðir fyrir að tala í farsíma við akstur bifreiða sinna í liðinni viku.   Sekt við slíku broti er krónur 40 þúsund.

Ökumaður sem lögregla í Vík hafði afskipti af þann 23. janúar reyndist sviptur ökurétti.  Ökumaðurinn reyndist langt að heiman og verður að teljast óhöndugt að vera stöðvaður réttindalaus að nóttu til langt frá náttstað og eiga ekki í nein hús að venda. Hann aðstoðaður við að komast leiðar sinnar en bifreiðin skilin eftir á öruggum stað.

Sumarbústaðaeigandi við Lækjargötu í landi Svínhaga efst á Rangárvöllum tilkynnti um skemmdir á fjölda ungra birkiplantna sem orðið hafa við akstur breyttrar bifreiðar um land hans einhverntíman í kring um nýliðin áramót. Kunni einhver skýringar á akstrinum er sá hinn sami beðinn að gefa sig fram við lögreglu.