26 Júlí 2021 10:49

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd var bjart yfir í Veiðivötnum þegar lögreglumenn voru þar við eftirlit þann 21. júlí s.l.    Höfð voru afskipti af 20 ökumönnum, ástand þeirra og réttindi könnuð og reyndist allt í lagi þar.   Rætt við ferða- og veiðimenn og farið um svæðið.   Deginum áður voru lögreglumenn við eftirlit í Landmannalaugum og á  Fjallabaksleið nyrðri og voru 8 hópbifreiðar teknar til vegaskoðunar.  Allt í lagi með ökutækin og ökumenn almennt til fyrirmyndar með sín mál.

3 ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um að þeir væru ölvaðir við akstur bifreiða sinnar í umdæminu í liðinni viku.   Aðrir 3 voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fiknefna eða lyfja og einn þeirra í tvígang sama daginn.   Sá hafði fengið mann til að skækja bílinn eftir fyrra brotið sem var kl. 10:50 að morgni dags en var stöðvaður aftur á bílnum sama dag kl. 14:00

Tveir ökumenn sem lögregla hafði afskipti af voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiðar sinnar.   Báðir neita sök og málin komin til ákærusviðs til meðferðar.    40 þúsund króna sekt er við broti af þessu tagi.

51 ökumaður var kærður fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku.  Einn þeirra telur í hóp þeirra sem taldir voru hér að ofan og eru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Karlmaður slasaðist á öxl í brattri skriðu í Gagnheiði NV af Ármannsfelli þann 21. júlí.    Björgunarsveitir kallaðar til ásamt þyrlu LHG og maðurinn fluttur með henni á sjúkrahús í Reykjavík.  Aðstæður erfiðar og brattar.

Sama dag aðstoðuðu björgunarsveitir dreng og móður hans en sá var slasaður á fæti eftir að hafa verið að stökkva á milli steina í gilinu neðan við Hundafoss við Skaftafell.   Meiðsl minniháttar og gert að þeim á heilsugæslu á Kirkjubæjarklaustri.

Kona slasaðist á göngu frá Landmannalaugum þann 24. júlí.   Aðstæður til aðstoðar við hana og burðar þannig að björgunarsveitarmenn við hálendisgæslu á vettvangi mátu tilefni til þess að kalla til þyrlu LHG í verkefnið og konan flutt með henni á sjúkrahús.   Að öðrum kosti hefði þurft 6 tíma vinnu við burð um brattar skriður til að koma viðkomandi á sjúkrahús.

Maður féll af reiðhjóli sínu á Krakatindsleið þann 24. júlí.    Slasaður á baki og fluttur með björgunarsveitarbíl til móts við sjúkrabifreið og þaðan á sjúkrahús.    Meiðsl ekki talin alvarleg.