1 Október 2018 12:10

28 ökumenn voru í liðinni viku kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu. Einn þeirra var, í almennu eftirliti, stöðvaður á Biskupstungnabraut þann 30. september kl. 03:54 á 136 km/klst hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst. Hann er grunaður um að hafa að auki verið ölvaður við akstur bifreiðar sinnar. 13 þessara ökumanna voru í Rangárvallasýslunni, 4 í Vestur skaftafellssýslu, 5 í Árnessýslunni og 6 í Austur Skaftafellssýslu.

Ökumaður sem stöðvaður var í Þorlákshöfn að kvöldi 28. september er grunaður um að hafa verið að aka bifreið sinni undir áhrifum fíkniefna. Annar sem stöðvaður var í Hveragerði sama dag reyndist vera að aka þrátt fyrir að hafa verið sviptur ökuréttindum. Sá hefur nú í þrígang verið stöðvaður við þessa iðju sína og lýkur væntanlega máli sínu með greiðslu sektar sem hækkar jafnt og þétt við hverja ítrekun brots. Að endingu tekur við fangelsisdómur og auk þess er skylt að gera bifreið viðkomandi upptæka til ríkissjóðs vegna ítrekaðs aksturs sviptur ökurétti sbr. ákvæði greinar 107a umferðarlaga.

Stúlka á tólfta aldursári, farþegi á sexhjóli í fjársmölun, datt af hjólinu, þegar það valt, og handleggsbrotnaði þann 29. september í Grafningi. Hún var flutt, af nærstöddum, á sjúkrahús til aðhlynningar.

Sama dag slasaðist maður á rafskutlu þegar hann missti stjórn á henni við Tryggvagötu við Norðurhóla á Selfossi og lenti þar í skurði. Vegfarendur komu honum til aðstoðar þar sem hann var fastur undir rafskutlunni og að hluta til í vatni sem er í skurðinum. Meiðsl mannsins eru ekki talin alvarleg.

Ferðamaður í skipulagðri ferð við Jöklasel á Skálafellsjökli þann 27. september slasaðist á öxl þegar hann velti snjósleða sem hann ók. Hann er talinn beinbrotinn. Farþegi á sleðanum slapp hinsvegar lítið eða ómeiddur. Bæði voru flutt til aðhlynningar á sjúkrahúsinu á Höfn.

Þá slasaðist maður við vinnu sína á athafnasvæði vegagerðarinnar í Vík þann 26. september þegar hann féll af vörubílspalli. Hann er með áverka á fæti en ekki er vitað nánar um eðli þeirra.

Á Suðurlandsvegi við Múlakot varð árekstur þann 25. september með tveimur bifreiðum sem ekið var í sömu átt þegar ökumaður fremri bifreiðarinnar beygði til vinstri inn á afleggjara en ökumaður aftari bifreiðarinnar hugðist aka fram úr þeirri fremri í sömu mund. Tvennt var í aftari bifreiðinni og sluppu þau lítið eða ómeidd en tveir af fjórum farþegum í fremri bifreiðinni voru fluttir með sjúkrabifreið á heilsugæslustöðina á Kirkjubæjarklaustri til aðhlynningar.

Þann 24. september var brotist inn í bílskúr á Selfossi og þaðan jafnframt stolið sendibifreið. Bifreiðin fannst síðan í Reykjavík og hefur verið komið til eiganda. Hún virðist óskemmd en eitthvað af munum sem í henni voru vantar enn.