6 Apríl 2021 10:35

Nú þegar sest er við til að skrifa pistil vikunnar er í meðförum hjá okkur ungmenni sem uppvíst var að því að aka bifreið sinni með 134 km/klst hraða á Suðurlandsvegi í Ölfusi þar sem hámarkshraði hefur verið lækkaður niður í 50 km/klst vegna vinnu við veginn.  Viðurlög við broti sem þessu eru 210 þúsund króna sekt auk sviptingar ökuréttar í 3 mánuði en til viðbótar mun ökumaður þurfa að sæta því að sækja sérstakt námskeið fyrir handhafa bráðabirgðaskírteinis því viðkomandi hefur einungis haft ökuréttindi í rúma 2 mánuði.

Mikilvægt er að ökumenn virði viðvaranir og breyttan hámarkshraða á vinnusvæðum á og við veg því þar er von á fólki við störf og slysahætta því viðvarandi.

63 ökumenn voru í liðinni viku kærðir yfir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi.   Af þeim eru 30 staðsettir í Árnessýslu, 24 í V-Skaftafellssýslu og 9 í Rangárvallasýslu.   Ljóst er að ökumenn hafa heldur tekið við sér frá liðinni viku.   Vert er þó að hafa í huga að ísingarhætta er enn fyrir hendi og full ástæða til að fara varlega.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir, grunaðir um að vera undir áhrifum fíkniefna við akstur bifreiða sinna í vikunni.   Þá var sá þriðji stöðvaður vegna gruns um að viðkomandi væri undir áhrifum áfengis við akstur bifreiðar sinnar.

Brotist var inn í aðstöðu gámastöðvarinnar við Víkurheiði á Selfossi og var það tilkynnt til lögreglu þann 27. mars s.l.  Skemmdir voru unnar á innanstokksmunum og smáræði af skiptimynt stolið.   Þann 3 apríl var lögreglu tilkynnt um að brotist hafi verið inn í aðstöðu á gámasvæði Sorpstöðvar Suðurlands á Strönd á Rangárvöllum.  Sömuleiðis þar voru unnar skemmdir á innanstokksmunum en ekki að sjá að neinu hafi verið stolið.   Allir sem telja sig hafa upplýsingar um málið eru beðnir að koma þeim til lögreglu.   Eftirlitsmyndavélar eru á a.m.k. öðrum þessara staða og unnið er að því að fara yfir það sem þar er vistað.

Tvö mál er varða heimilisofbeldi komu upp í liðinni viku á Suðurlandi og eru rannsökuð eins og reglur kveða á um.  Í öðru tilfellinu er um að ræða meint brot sambýlismanns  gegn eiginkonu en í hinu málinu meint brot fyrrum unnustu gegn fyrrum kærasta sínum.

Komið var að fanga í klefa að Litla Hrauni látnum í rúmi sínu að morgni 1. apríl s.l. Andlát hans er til rannsóknar eins og mælt er fyrir um þegar maður deyr utan sjúkrastofnunar og er ekki að vænta frétta af þeirri rannsókn að sinni.   Lögregla hefur verið í samskiptum við aðstandendur um málið og beðið er niðurstöðu réttarkrufningar sem mun að líkindum fara fram síðar í vikunni.