7 Júní 2021 16:21
Sem fyrr þá byrjum við á umferðinni. 4 ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiðar sinnar í umdæminu í liðinni viku. 40 aðrir voru kærðir fyrir að aka of hratt, af þeim eru 10 sem aka hraðar en 130 km/klst hraða. Einn þeirra mældist á 169 km/klst hraða á Suðurlandsvegi til móts við Bolöldu vestan Hellisheiðar þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst. Hann situr uppi með þriggja mánaða sviptingu og sekt upp á 250 þúsund krónur. Til fróðleiks þá fer bifreið sem ekið er með 130 km/klst hraða rúmlega 36 metra á sekúndu og bifreið sem ekið er með 169 km/klst hraða fer tæplega 47 metra á sekúndu. Ljóst er að ekki má margt útaf bregða til að slíkur akstur endi ekki með ósköpum.
Umferð er nú að aukast og fjölgun erlendra ferðamanna sjáanleg sem stór hluti af aukningunni. Um leið og við fögnum því minnum við fólk á að fara gætilega og vera undir það búið að einhverjum ferðamanninum, sem sér eitthvað nýtt, detti í hug að bregðast öðruvísi við en við myndum gera og jafnvel stöðva utan í blindhæð til að taka myndir eða skoða í kringum sig.
Einn ökumaður var kærður fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna en akstur hans var stöðvaður á Suðurlandsvegi við Bollastaði í Flóa. Mál hans heldur áfram til ákæruvalds strax og endanleg niðurstaða úr rannsókn á blóðsýni liggur fyrir. Ökumaður þessi var sviptur ökurétti til bráðabirgða.
Björgunarsveitir aðstoðuðu tvo ferðamenn norðan Esjufjalla þann 5. júní s.l. hvar þeir lentu í vandræðum á leið sinni um Vatnajökul á gönguskíðum vegna veikinda. Þeim komið í hótelgistingu við Kirkjubæjarklaustur. Þá fóru björgunarsveitir í tvígang í liðinni viku á Fimmvörðuháls, í fyrra skiptið, þann 1. júní til aðstoðar tveimur göngumönnum sem höfðu örmagnast. Fólkið flutt til byggða með þyrlu LHG. Í seinna skiptið voru göngumenn sem enduðu í e.k. sjálfheldu við Heljarkamb þar sem keðja sem menn nýta til stuðningu um þá leið er undir snjó og skaflinn brattur og háll. Mennirnir fluttir upp á hálsinn aftur og þaðan með bíl til byggða. Síðar fóru björgunarsveitarmenn og lögðu línu til bráðbirgða yfir skaflinn til að fólk gæti stuðst við hana á ferðum sínum.
Tvö mál er varða heimilisofbeldi komu upp um liðna helgi. Annað í Austur Skaftafellssýslu og hitt í Árnessýslu. Málin til rannsóknar hjá rannsóknardeild.