17 Nóvember 2020 09:58

Nú fækkar nýgreindum smitum vegna kórónaveiru og ber að þakka það þátttöku almennings í aðgerðum til að draga úr dreifingu smita.   Á sama hátt verður árangurinn af því að viðhalda þessum lægri tölum algerlega háður því hvað þú sem einstaklingur gerir í þínum smitvörnum.   Tökum ábyrgð á verkefninu og okkar eigin hegðun.   Eða eins og einhver sagði: „Handþvottur, tveggja metra reglan og gríman“

Í liðinni viku voru 13 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt. Af þeim eru 5 á vegarköflum þar sem leyfður hámarkshraði er 70 km/klst en hinir 8 á vegum þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst.   10 þessara hraðakstursmála eru á svæðinu í kring um Vík og Kirkjubæjarklaustur.

4 stór ökutæki voru tekin til sérstakrar skoðunar í vikunni. Öll á höfuðborgarsvæðinu.   Ástand þeirra gott og frágangur á farmi til fyrirmyndar.   Hinsvegar slitnaði stórt sk. stöðuhýsi aftan úr jeppabifreið á Biskupstungnabraut þann 12.11. s.l. Frágangur þar var ófullnægjandi, hýsið 3,7 m á breidd og 11 m langt og án ljósabúnaðar.   Ökumaður, sem ekki hafði sótt um undanþágu fyrir flutningnum, má reikna með að fá sekt fyrir brot sitt.   Þá var ökumaður á „pick up“ sem dró kerru með gröfu kyrrsett við Gjábakkaveg þann 14. nóvember en vélin var ekki fest á vagninn. Ökumaðurinn var ekki með réttindi til aksturs með eftirvagn þessarar stærðar.

3 ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma sinn án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða sinna.

3 ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum undir áhrifum fíkniefna í liðinni viku í umdæminu. Tveir þeirra voru í Vík en einn á Selfossi.   5 eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum undir áhrifum áfengis.   Þeir voru allir á eða við Selfoss.

Lögreglumenn á Höfn sinntu verkefni á Suðurlandsvegi þann 14. s.l. en þá var tilkynnt um laust hross á veginum snemma morguns.   Svarta myrkur var á vettvangi og fylgdi sögunni að tilkynnandi hefði þá þegar reynt að teyma eða reka hrossið af veginum en það lét sér ekki segjast og fór alltaf aftur upp á veg og tók sér stöðu á miðlínu hans. Að endingu teymdi tilkynnandi það inn í girðingu við veginn og upplýsti lögreglan talinn eiganda um stöðu mála.     Ökumenn eru hvattir til þess að gæta sín á ferðum sínum,   Austan til í umdæminu er gjarnan von á hreindýrum á vegi og í öllum sveitum getur það gerst að búfénaður, hverju nafni sem hann nefnist, flækist út á vegi og fyrir bíla.