19 Desember 2017 13:59

Karlmaður slasaðist þegar hann missti bifreið sína út af Bakkavegi í Rangárþingi eystra þann 17. desember s.l. Hann var fluttur undir læknis hendur með áverka á handlegg.  Sama dag slasaðist kona á höfði þegar hún rann í hálku við Gullfoss.   Þann 16. desember slasaðist maður sem féll í hálku utandyra við sveitabæ í Rangárþingi eystra.  Hann reyndist með áverka á höfði.  Einnig þann dag slasaðist fullorðin kona þegar hún datt í hálku á Selfossi þegar hún var að fara með rusl út í tunnu.  Komst af sjálfsdáðum inn með því að skríða í hálkunni inn.  Sjúkraflutningamenn fluttu konuna á HSU til skoðunar.   Barn slasaðist í hálku við leik á leikskóla á Selfossi þann 14. desember.   Þann 12. desember féll maður á fimmtugsaldri af reiðhjóli sínu á Selfossi.  Hann skarst á höfði við fallið.   Þá slasaðist 64 ára maður á fæti  við fall  við Gullfoss þann 11. desember.  Meiðsl allra þessara aðila eru talin minniháttar.  Hinsvegar verður að brýna fyrir fólki að gæta aða sér í hálkunni og búa sig í samræmi við aðstæður hverju sinni.  Þó svo meiðsl teljist minniháttar getur viðkomandi verið lengi að jafna sig af þeim og þau reynst þrálát.

21 umferðaróhapp er skráð í liðinni viku.   4 í nágreni Hafnar, 2 í Öræfum, 4 í nágreni við Kirkjubæjarklaustur og Vík svo eitthvað sé nefnt.   Í langflestum tilfellum er verið að tala um hálku og vanbúnað til aksturs í henni nú eða að of hratt er ekið m.v. aðstæður.  Sem betur fer er einungis um að ræða slys á fólki í einu þessara tilvika.

13 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku þrátt fyrir að aðstæður til aksturs væru ekki þær bestu.

6 ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma sinn án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða sinna. Þá reyndust 6 ökumenn réttindalausri við akstur en þeir höfðu veirð sviptir ökurétti vegna fyrri brota.  Tveir þeirra eru grunaðir um að hafa verið ölvaðir við akstur, annar þeirra var á bifhjóli á Höfn og var að endingu handtekinn þar sem hjól hans festist í skafli á gangstíg þar.   Hann hafið áður ekið töluverða stund um flughálar götur bæjarins á undan lögreglu og sinnti í engu stöðvunarmerkjum sem gefin voru.  Maðurinn gisti fangageymslur um nóttina en fór svo hjóllaus frjáls ferða sinna deginum eftir.   Gerð verður krafa um upptöku ökutækisins vegna ítrekaðra brota viðkomandi. Sá þriðji sem er grunaður um að hafa ekið ölvaður var þó með réttindin í lagi en mun líklega tapa þeim fljótlega.

Einn var kærður fyrir að flytja of þungan farm í vikunni. Hann var á Suðurlandsvegi og farmurinn á þriðja tonn yfir leyfðri þyngd.