24 Ágúst 2016 11:48

Í liðinni viku voru 86 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Af þeim greiddu 65 sekt sína á staðnum en 21 ljúka máli sínu með greiðslu sektar skv. greiðsluseðli.    Athygli vekur að af þessum 86 ökumönnum eru 63 erlendir ríkisborgarar.  Af þeim eru Ítalir flestir eða 14 talsins, 10 eru frá Bandaríkjunum, 6 eru frá Frakklandi, 5 frá Þýskalandi og Spáni en önnur lönd eiga færri kandídata í þessum efnum.

Einn var tekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og annar grunaður um að aka undir áhrifum áfengis.   2 voru kærðir fyrir að vera ekki með skráninganúmer á bifreið sinni en nokkuð ber á því að þau vantar og mun lögregla fylgja því sérstaklega eftir á næstu dögum.   Ökumaður ber ábyrgð á því að skráningarnúmerið sé til staðar og varðar það 10 þúsund króna sekt ef svo er ekki.

Einn var kærður fyrir að flytja farþega gegn gjaldi án þess að hafa tilskilin réttindi til slíks aksturs. Sá var að aka með farþega í Jökulsárlón á vegum íslensks  fyrirtækis en var sjálfur ítalskur með útgefin B réttindi í ökuskírteini.

S.l. laugardag varð árekstur með sendibifreið og fólksbifreið á Þingskálavegi skammt ofan Geldingalækjar.   Ökumaður fólksbifreiðarinnar lést við áreksturinn en ökumaður sendibifreiðarinnar var fluttur, töluvert slasaður,  með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík.

S.l. mánudagskvöld féll kona niður um op við neyðarútgang á svölum á þriðju hæð í skrifstofuhúsnæði við Austurveg á Selfossi.  Fallið var rúmlega 6 metrar og slasaðist konan alvarlega.  Tildrög slyssins eru til rannsóknar hjá lögreglu og Vinnueftirliti.

Eldur kom upp í vélaverkstæði við Austurveg á Selfossi aðfaranótt 22. ágústs s.l Slökkvistarf gekk greiðlega en nokkurt tjón er af reyk og sóti á verkstæðinu.  Eldsupptök reyndust vera í dráttarvél sem þar var til viðgerðar.   Þá kom eldur upp í bíl á Höfn þann 18. ágúst s.l.   Viðstaddir náðu að slökkva hann með handslökkvitæki.  Töluvert tjón er á bílnum en líkur eru á að kviknað hafi í út frá rafbúnaði bílsins.