23 Nóvember 2020 09:39

29 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku á Suðurlandi. Einn þeirra mældist á 155 km/klst hraða á Mýrdalssandi þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst.   Hann situr uppi með 210 þúsund króna sekt og sviptingu ökuréttar í 1 mánuð. Að auki fær hann 3 punkta í ökuferilsskrá fyrir brot sitt.   Annar ökumaður var stöðvaður á 140 km/klst hraða á Suðurlandsvegi í vestanverðu umdæminu en á þeim stað er einnig 90 km/klst hámarkshraði. Sá var að flýta sér í skýrslutöku hjá lögreglu á Selfossi.   Hann kláraði mál sín við lögreglumenn á vettvangi og mætti tímanlega, um 10 mínútum fyrir boðaðan tíma til skýrslugjafarinnar. Þriðji ökumaðurinn sem hér kemur við sögu reyndist þegar sviptur ökurétti vegna fyrri brota.   Hann var í Skaftafellssýslunni, til móts við Skál og þurfti að greiða úr bílstjóravöntun sinni áður en hann fékk að halda leiðar sinnar.

Ökumaður sem stöðvaður var við útsýnispall í Eldhrauni þann 19. nóvember s.l. reyndist undir áhrifum kannabis.   Honum gert að hætta akstri og fær mál hans venjubundna meðferð.

Þann 20. nóvember valt bifreið út af vegi á mótum Suðurlandsvegar og Hoffellsvegar. Ökumaður einn í bílnum og slapp lítið meiddur.   Hálka var á vettvangi og erfitt að athafna sig. Vegagerðin upplýst.

14 stór ökutæki voru stöðvuð og tekin til s.k. vegaskoðunar, þar af ein hópbifreið.   Athugasemdalaust í öllum tilfellum nema einu þar sem gerðar voru athugasemdir við aurhlífar vörubifreiðar sem og afturljós hennar.

11 verkefni eru skráð í vikunni sem tengjast kóronaveirufaraldri. Um er að ræða eftirlitsferðir á veitinga og gististaði og flutning sýna til rannsóknar.