27 Ágúst 2018 09:48

54 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Af þeim voru 37 á ferð um Árnessýsluna, 11 í Rangárvallasýslunum og 6 í Skaftafellssýslunum.   Einn þessara ökumanna er grunaður um að hafa verið undir áhrifum við akstur bifreiðar sinnar á 132 km/klst hraða um Suðurlandsveg og sviptur ökurétti að auki.   Í ár hafa 1062 ökumenn verið kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu og er það nokkru lægra miðað við síðasta ár þegar 2200 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt allt það ár og 2185 allt árið þar á undan. Misjafnt er milli landshluta hvernig þessi þróun er í hraðakstri  en í 6 af 9 umdæmum lögreglu á landinu stefnir í fjölgun hraðakstursbrota á meðan 3 umdæmanna eru með lægri tölur.

3 ökumenn eru kærðir fyrir að nota farsíma við akstur bifreiðar sinnar án þess að hafa til þess handfrjálsan búnað og einn fyrir að nota ekki öryggisbelti við aksturinn.

6 tilvik eru skráð þar sem sauðfé varð fyrir bílum í vikunni öll í austur Skaftafellssýslu.

Björgunarsveitarmenn voru kallaðir út til leitar við Hvalnes austan Hafnar þann 22. ágúst eftir að ferðamaður taldi sig hafa heyrt kallað á hjálp þar.   Leitinni var hætt þegar hún bar ekki árangur og eftirgrenslan um hvort og hver gæti annar hafa verið þarna á ferðinni gaf ekki tilefni til að ætla að þarna væri einhver í vantræðum á svæðinu.

Þann 25. ágúst voru björgunarsveitir kallaðar til leitar í Þórsmörk eftir að einn farþega í ferðahóp skilaði sér ekki í rútu. Umræddur farþegi fannst síðar í kjarrlendi utan almennra gönguleiða og hafði þá slasast á fæti, líklegast fótbrotnað.

Aðfaranótt 24. ágúst slösuðust 2 menn þegar þeir voru að vinna að lagfæringu heitavatnslagnar í tengibrunni á Selfossi. Mennirnir leituðu sér sjálfir aðstoðar á sjúkrahúsi en ekki liggur fyrir um meiðls þeirra enn sem komið er.

Þann 21. ágúst slasaðist 14 ára drengur þegar hann féll á motorkross hjóli í braut í Bolaöldu.   Vel búinn öryggisbúnaði og meiðsl ekki talin alvarleg við skoðun á vettvangi.

Rúða var brotin í gröfu á gámasvæði á Höfn einhvertíman um helgina 10. til 12 ágúst og leikur grunur á að börn hafi verið þar að verki.   Þá voru brotnar rúður í útihúsi við Hveragerði og stóð eigandinn unga drengi að þeim verknaði.   Það mál unnið í samstarfi við barnaverndaryfirvöld.