28 Maí 2018 12:47

3 ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um ölvun við akstur í liðinni viku.   Um einn þeirra var tilkynnt, þann 27. maí,  þar sem hann ók austur Hellisheiði á miklum hraða með „hazard“ ljósin kveikt og annað framljósið hangandi fram úr stuðara bifreiðarinnar.   Sá var stöðvaður við Hveragerði og reyndist ölvaður.   Sama dag voru 2 aðrir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur, annar innanbæjar á Selfossi og hinn á Biskupstungnabraut.

Ökumaður fólksbifreiðar sem stöðvaður var vegna aksturs hans sviptur ökuréttindum á Suðurlandsvegi við Bolöldu þann 23. maí s.l. reyndist undir áhrifum fíkniefna.

Einungis 12 ökumenn voru stöðvaðir fyrir að aka of hratt í vikunni. 7 í Árnessýslu, 2 í Rangárvallasýslu, 2 í Eldhrauni og einn í Nesjum við Höfn. Þetta eru færri ökumenn en oft áður.  Mögulega hafa hækkaðar sektir áhrif til lækkunar ökuhraða en líta þarf yfir lengra tímabil til þess að meta það.   Þeir sem kærðir voru voru sumer hverjir á rúmlega 130 km/klst hraða.

Fullorðin kona er talin hafa nefbrotnað þegar hún féll á steingólf í matvöruverslun á Höfn þann 23. maí s.l. Talið er að hún hafi flækt fót í plasti á vörubretti á gólfi verslunarinnar og dottið við það.

3 umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku, eitt þeirra með slysum á fólki þegar bifreið var, þann 22. maí, ekið út frá bifreiðastæði Húsasmiðjunnar við Eyrarveg á Selfossi og í veg fyrir bifreið sem ekið var um Eyrarveginn. Önnur bifreiðin valt við áreksturinn.   Í öðru tilviki, þennan sama dag, feyktist planki af vörubílspalli á fólksbifreið á Biskupstungnabraut og hlutust nokkrar skemmdir af því án þess þó að slys yrðu á fólki. Einnig þennan sama dag valt vörubifreið á Rangárvallavegi, skammt vestan við Keldur.

Um liðna helgi var árlegt motorkross mót á Kirkjubæjarklaustri. Um 200 manns eru talin hafa sótt mótið og gekk mótshaldið vel fyrir sig þrátt fyrir að blautt væri á mótsgestum.

Hvalur synti inn í höfnina á Höfn í gærkvöldi og spókaði sig þar fram á nóttina en hélt síðan leiðar sinnar út á Atlandshafið þegar flæddi að á ný.   Ekki er vitað um erindi hans og ekki verður séð að tengsl við úrslit nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga komi þar við sögu.