3 Maí 2021 11:25

Ökumaður sem fór af vettvangi eftir að hafa ekið bifreið sinni á rafmagnskassa í Þorlákshöfn þann 30. apríl s.l. var stöðvaður og er grunaður um að hafa verið ölvaður við aksturinn í umrætt sinn.   Tveir aðrir ökumenn sem stöðvaðir voru í liðinni viku á Suðurlandi eru grunaðir um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við akstur bifreiða sinna.   Annar þeirra einnig sviptur vegna fyrri brota.

21 ökumaður var kærður fyrir of hraðan akstur í vikunni.   Af þeim eru 2 erlendir ferðamenn og má nú reikna með að þeim fari fjölgandi í umferðinni enda ferðamönnum heimilt að koma frá tilteknum löndum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.   Þannig berast fréttir af reglulegu flugi frá USA þar sem búast megi við fullbólusettum einstaklingum sem ekki þurfa sóttkví reynist sýnataka á landamærum neikvæð við komu.  Við bjóðum ferðamennina velkomna en  biðjum þá jafnframt að gæta að þeim reglum sem í umferðinni gilda.

Ökumaður sem flutti barn án viðeigandi öryggisbúnaðar í bifreið sinni á Selfossi situr uppi með 30 þúsund króna sekt fyrir brot sitt.   Barnavernd tilkynnt.

5 umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku, öll án teljandi meiðsla.   Hestakerra losnaði aftan úr bifreið á Suðurlandsvegi vestan Þjórsár þann 30. apríl, rann út fyrir veg og valt.  Í kerrunni var 4 vetra hestur sem var leiddur yfir í aðra kerru sem eigandinn fékk á vettvang og virtist lítið meiddur.    Dráttarbeisli bifreiðarinnar virðist hafa brotnað með fyrrgreindum afleiðingum.   Ökumaður bifreiðar sem valt á Landvegi þann 2. maí hlaut aðhlynningu í sjúkrabifreið en fór með aðstandendum af vettvangi í framhaldi af því.   Bifreiðin flutt af vettvang i með dráttarbifreið og sögð ónýt.

Eftirliti var sinnt vegna smitvarna í liðinni viku en tilefni til aðfinnslu komu ekki upp.  Smit hafa verið í gangi í vestanverðu umdæminu og er aðdáunarvert að sjá hvernig samfélagið hefur sameinast um að taka á þeim og reyna að hefta útbreiðslu þeirra.  Mikilvægt er að fara að reglum um sóttvarnir og missa ekki dampinn svona þegar styttist í verkefninu sem við öll þráum svo að losna út úr.