10 Febrúar 2020 11:25

48 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku. Af þeim voru 15 V-Skaftafellssýslu þar sem skammvinn hláka og auðir vegir virtust virka hvetjandi á hraða ökutækja og uppgjör posa eftir vaktina hljómaði upp á rúma hálfa milljón.   20 óku of hratt í Árnessýslunni.og reyndist einn ökumaður undir áhrifum fíkniefna og bíður nú niðurstöðu mælinga í blóðsýni sem sent var til rannsóknar. 10 óku of hratt í Rangárvallasýslunni.

4 ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiðar sinnar. Sektin við slíku eru krónur 40.000.- og hægt að kaupa sér veglegan handfrjálsan búnað fyrir þá upphæð.

3 ökumenn reyndust með of þungan farm á flutningabifreiðum sínum við vigtun þeirra. Vegna hlýindakafla í liðinni viku voru settar á þungatakmarkanir á tilteknum vegum skv. ákvörðun Vegagerðar og því var sérstaklega fylgst með því að eftir eftir þessum takmörkunum væri farið.

3 ökumenn voru sektaðir vegna þess að ljósabúnaður bifreiða þeirra reyndist í ólagi.

Heildarupphæð álagðra sekta í umdæminu í liðinni viku þegar eingögnu er litið til þeirra mála sem lokið er, eða heimilt að ljúka á vettvangi með greiðsluseðli nemur rúmlega 3,5 milljónum. 56 brot standa að baki þessum sektum, 32 aðilar með íslenska kennitölu en 24 erlendir ferðamenn.

5 slys, önnur en umferðarslys, voru tilkynnt til lögreglunnar í vikunni. Í fjórum þeirra var um að ræða gangandi fólk sem datt í hálku en í einu tilfelli var um að ræða fall af hesti. Allir þessir aðilar fluttir til aðhlynningar á viðeigandi heilbrigðisstofnun eða sjúkrahús.

8 umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu í vikunni, öll nema eitt án meiðsla skv. tilkynningu. Í þessu eina tilfelli var um að ræða ökumann vélsleða sem fór frá heimili sínu í V.-Skaftafellssýslu þann 8. febrúar og slasaðist að því er virðist við að aka í lækjarfarveg á leið hans.   Hann var skoðaður á heilbrigðisstofnun en útskrifaður þaðan samdægurs tannbrotinn og með áverka á andliti.