10 Ágúst 2020 12:11

Þar sem mánudagurinn, frídagur verslunarmanna, flaut með í síðustu samantekt eru einungis 6 dagar undir nú.   Allt að einu þá er hraðaksturinn það umferðarlagabrot sem vinsælast er af landanum en 55 ökumenn voru kærðir fyrir slíkt brot þessa daga.   Það sem af er ári hafa 1461 verið kærðir fyrir hraðakstursbrot í umdæminu. Það er svipuð tala og árin 2015, 16 og 17 en met ár var 2019 og á þessum tíma þá höfðu 2635 verið kærðir fyrir að aka of hratt.   Skýringin á færri málum í ár en í fyrra er að líkindum að stórum hluta hlutdeild eða öllu heldur hlutdeildarleysi erlendra ferðamanna í umferðinni nú miðað við s.l. ár. Fjölgunin 2019 frá árunum á undan var vegna stóraukins umferðareftirlits um allt Suðurland og hefur þeim þunga verið haldið allt þetta ár en umferðin er minni og að mestu vegna íslenskra ökumanna.

Þrír voru stöðvaðir grunaðir um ölvun við akstur og aðrir tveir grunaðir um að aka undir áhrifum ávana og fíkniefna. Báðir réttindalausir, annar sviptur en hinn aldrei öðlast ökuréttindi.   Samtals voru 6 ökumenn stöðvaðir vegna aksturs án ökuréttinda á tímabilinu.

Tveir erlendir mótorhjólamenn gengust undir sektargerð eftir að hafa ekið utan vegar við Lakagíga þann 4. ágúst s.l.    Ábending kom til lögreglu frá landvörðum og voru þeir stöðvaðir á Kirkjubæjarklaustri í framhaldi af því.

Akstur þriggja annarra er til skoðunar en lögreglumenn við hálendiseftirlit höfðu afskipti af þeim í gær á Sprengisandsleið. Þeir höfðu ekið um 15 metra út fyrir veg og áð þar til að borða nesti sitt. Landverðir rökuðu yfir för eftir þá hið snarasta til að aðrir fari síður að leita út af vegi á þessum stað.   Málið á leið til ákærusviðs.

Þann 8. ágúst slasaðist 14 ára drengur þegar hann var að stökkva yfir skurð við Nesjar vestan Hafnar.   Drengurinn lenti ofan í skurðinum og virtist, við fyrstu skoðun, fótbrotinn.

Sama dag slasaðist maður sem var við málningarvinnu á þaki húss á Höfn þegar hann féll fram af brúninni og til jarðar. Hann var fluttur á sjúkrastofnun til aðhlynningar en ekki talinn alvarlega slasaður.

Þann 6. ágúst slasaðist karlmaður sem var við vinnu á vinnupalli í húsi sínu á Selfossi þegar þaksperra sem hann var að losa féll á pallinn og felldi bæði hann og manninn.   Nágranni kom til aðstoðar og var viðkomandi fluttur á sjúkrahús í Reykjavík en útskrifaður fljótlega og meiðsl ekki talin alvarleg.

Þann 4. ágúst voru björgunarsveitir kallaðar til aðstoðar vegna erlends ferðamanns sem slasaðist á fæti á göngu sinni frá Seljavallalaug að bifreiðastæði þar.   Félögum mannsins tókst að koma honum sjálfir að bíl og eftir að sjúkraflutningamenn höfðu skoðað áverkann fóru þeir áleiðis til Reykjavíkur til að láta mynda áverkann.

Lögreglumenn hafa farið í fjöldan allan af eftirlitsferðum inn á veitingastaði og um tjaldsvæði í umdæminu til að fylgja eftir sóttvarnarreglum sem nú eru í gildi.   Lang flestir eru með sitt í sæmilegu lagi en alltaf má gera betur.   Við hvetjum fólk til þess að taka ábyrgð og séu aðstæður þannig að við finnum okkur ekki örugg í þeim þá er það okkar að koma okkur í burtu og síðan að upplýsa lögreglu um málið, annað hvort með hringingu í síma eða á netfangið sudurland@logreglan.is   Við eigum þríeiki góða þar sem eru afburða leiðtogar að leiða okkur áfram í þessu verkefni.   Árangurinn veltur hinsvegar ekki síst á því hvernig við tökumst sjálf á við verkefnið.   Munum handþvottinn og sprittunina. Grímur þar sem það á við og tveggja metra regluna.