11 Október 2021 13:07

28 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku.   Af þeim reyndist ökumaður sem stöðvaður var til móts við Þorgeirsstaði í Lóni sá er hraðast ók en bifreiðin mældist á 149 km/klst hraða þar sem leyfður ökuhraði er 90 km/klst.   Hann lauk máli sínu með greiðslu sektar að upphæð 210 þúsund krónur og sviptingu ökuréttar í 1 mánuð.   Snubbóttur endir á annars skemmtilegri heimsókn til Íslands.   Annar ökumaður, íslenskur, var stöðvaður á 137 km/klst hraða  á Biskupstungnabraut norðan við Borg en þar er 70 km/klst hraði.   Málið á leið til ákæruvalds til afgreiðslu en varðar 180 þúsund króna sekt og 2 mánaða sviptingu.

Erlendur ökumaður í ferðaþjónustu á bifreið á erlendum númerum reyndist án tilskilinna leyfa til aksturs í ferðaþjónustu þegar akstur hans var stöðvaður þann 10. október s.l.  á Suðurlandsvegi við skeiðavegamót.  Bifreiðin skráð fyrir 8 farþega og ökumaðurinn ekki heldur með tilskilin ökuréttindi.   Hann lauk máli sínu með greiðslu sektar á vettvangi.   Ökumaðurinn fékk leigubifreið til að flytja farþegana á Keflavíkurflugvöll.   Brot ferðaskrifstofunnar enn til meðferðar.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis og aðrir tveir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna í umdæminu í liðinni viku.

Tveir ökumenn, annar á fólksflutningabifreið voru kærðir fyrir að tala í síma við akstur bifreiða sinna.

Í hvassviðri sem gekk yfir landið þann 7. október fuku tvær bifreiðar af vegi.  Önnur af Flugvallarvegi við Höfn þar sem ekki urðu slys á fólki og hin á Suðurlandsvegi við Skeiðflöt.      Þar var um að ræða hópbifreið og í henni 8 manns sem, eftir hópslysaáætlun sem var virkjuð, voru fluttir á söfnunarsvæði í Ketilsstaðaskóla en síðan á viðeigandi sjúkrastofnun eftir greiningu áverka.   Betur fór en á horfðist og virðast meiðsl hafa orðið minni en óttast var í fyrstu.    Viðbragðsaðilar af öllu Suðurlandi, ásamt nærstöddum ferðaþjónustuaðila á stórum sérbúnum trukk til fólksflutninga á jökli,  voru kallaðir til en stór hluti þeirra afturkallaður þegar betri upplýsingar fóru að skila sér af vettvangi og umfang slyssins varð ljóst.   Vindhviður nærri vettvangi mældust um og yfir 40 m/sek þegar verst lét.

Tvö mál er varða heimilisofbeldi komu upp í liðinni viku og eru til meðferðar hjá lögreglu og e.a. viðkomandi barnaverndaryfirvöldum.   Í þriðja málinu voru barnaverndaryfirvöld á Suðurlandi aðstoðuð þegar fjarlægja þurfti barn af heimili þar sem umtalsverð fíkniefnaneysla fór fram og ástand forsjáraðila eftir því.

5 mál komu upp þar sem sauðfé varð fyrir bíl.  6 lömb liggja í valnum eftir.  Atvikin eru allt frá Landvegamótum austur til Hafnar í Hornafriði.

Lögregla sat í liðinni viku fund þar sem farið var yfir rekstur á Sigurhæðum, þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi en Lögreglan á Suðurlandi er einn þeirra aðila sem að verkefninu koma.   Þjónustan er veitt á breiðum grunni til þolenda og getur hver sem er leitað þangað sér að kostnaðarlausu.   Starfsemin hófst á vordögum og hafa nú um 70 konur leitað þangað með erindi sín.  Sá sem þangað leitar fer fyrst í „Forviðtal“ þar sem greining fer fram á þörfum skjólstæðingsins og síðan stýrt áfram í sálfræði-, lögfræði- eða aðra þá þjónustu sem viðkomandi leitar eftir til að fá úrlausn sinna mála.  Frekari upplýsingar er að finna á www.sigurhaedir.is