18 Febrúar 2020 15:05

Óveður sem gekk yfir landið allt setti mark sitt á störf lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku.   Fyrir lá að aðfaranótt föstudagsins 14. febrúar myndi verða aftakaveður víða um land og Veðurstofan búin að vara við því með góðum fyrirvara. Reyndin varð að spárnar stóðust og til þess tekið að ferill lægðarinnar og vindhraði var nánast eftir klukkunni í samræmi við spá veðurfræðinga. Björgunarsveitir á öllu Suðurlandi voru við störf sem og slökkvilið, sjúkraflutningamenn og lögreglumenn vegna þeirra verkefna sem af þessu leiddi.   Þá opnaði Rauðikrossinn fjöldahjálparstöð í Vík að kvöldi fimmtudagsins 13. febrúar fyrir ferðamenn sem lokuðust af í Vík og þar í nágreni.   Á einhverjum veðurstöðvum í umdæminu mældist jafnaðar vindur yfir 12 vindstigunum gömlu og því gríðarlegt álag á mannvirki á þeim svæðum auk þess sem vindhviður mældust langt yfir þeim viðmiðum.   Tjón er mikið, bæði það sem skráð er hjá lögreglu eða björgunarsveitum en eins er ljóst að margir hafa ekki tilkynnt tjón hjá sér en munu væntanlega flestir leita með slík erindi til sinna tryggingafélaga.

Annars er það að frétta úr umferðinni að menn keyra enn of hratt. 32 ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstursbrot og af þeim var einn ungur ökumaður, sem áður hafði gerst brotlegur, fór yfir 4 punkta í ökuferilsskrá og var því settur í akstursbann.   Hann ók bifreið sinni með 136 km/klst hraða á Eyrarbakkavegi þann 10. febrúar en á þeim vegi er leyfður hámarkshraði 90 km/klst.   Akstursbann í þessum tilvikum er ótímabundið og gildir þar til viðkomandi hefur setið sérstakt námskeið til að bæta úr þekkingu sinni á akstri.

4 eru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða lyfja Ástand þeirra var misjafnt, allt frá því að blása rétt við leyfð mörk í það að geta illa tjáð sig eða staðið vegna vímu sinnar.

11 umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu í vikunni, öll nema eitt án meðisla. Í þessu eina tilviki var, þann 11. febrúar, um að ræða árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Eyravegar og Hagalækjar á Selfossi. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar var fluttur á heilbrigðisstofnun til aðhlynningar en er ekki talinn alvarlega slasaður.

Ökumaður dráttarvélar með malarvagn var stöðvaður á þjóðvegi 1 í A- Skaft þar sem hann flutti 3 farþega á malarvagninum.   Farþegarnir voru fluttir á áfangastað af lögreglu en ökumaður dráttarvélarinnar situr uppi með sekt fyrir brot sitt.

2 mál varðandi heimilisofbeldi eru til rannsóknar eftir vikuna og hafa nú 7 slík verið tilkynnt til lögreglu það sem af er ári. Ekki verður fjallað frekar um þessi mál hér en þau eru gjarnan um 60 á ári í umdæminu og mis alvarleg.