23 Nóvember 2021 12:25

Áður en við förum í yfirlit síðustu viku er rétt að ræða aðeins um stöðuna í Covid.    Fjöldi smita hefur verið mikill undanfarnar vikur og því mikilvægt að allir leggist á eitt og gæti að persónubundnum sóttvörnum, noti grímu þar sem það á við og sinni handþvotti af kostgæfni.   Séu menn að fást við einhver einkenni er rétt að fara í próf.   Bólusetningar ganga vel.  Þátttaka á Suðurlandi er góð og greinilegt að margir eru spenntir að gera það sem í þeirra valdi stendur í von um að geta haldið Jólin sæmilega áhyggjulaust.   Reynsla heilbrigðisgeirans er auk þess sú að þeir sem eru bólusettir veikjast síður, þeir sem veikjast veikjast minna og virðast fljótari að ná sér.  Þá eru afar fáir þeirra sem hafa fengið örvunarbólusetningu (þriðja skammt)  sem greinst hafa smitaðir (líklega innan við 20 af tugum þúsunda) og eru miklar vonir bundnar við árangur af því.  Á reglulegum fundi sóttvarnalæknis með sóttvarnarlæknum og lögreglustjórum í héraði í morgun kom fram að mótefnamæling í einstaklingum sem fengið hafa örvunarskammt sýndi allt að tíföldun í magni mótefna.   Það er því til mikils að vinna.

Nú þarf að fara að undirbúa áramótin.  Þeir sem hyggjast standa fyrir flugeldasölu þurfa að hafa skilað umsókn sinni þar um fyrir 30. nóvember ár hvert.   Á heimasíðu okkar eru umsóknareyðublöðin til reiðu  (hér)  Þá varð breyting á síðasta ári en þá voru allar flugeldasýningar gerðar starfsleyfisskyldar en áður þurfti ekki starfsleyfi heilbrigðiseftirlits vegna sýninga sem halda átti innan ákveðins tíma  í kring um áramótin.   Umsókn til lögreglustjóra er einnig að finna á linknum hér að ofan.  Upplýsingar um starfsleyfið er að finna á vef Heilbrigðiseftirlits Suðurlands

Liðin vika var róleg hjá lögreglunni á Suðurlandi.  Einungis 12 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt og af þeim voru 8 í Rangárvallasýslu, 1 við Vík og 2  í Öræfum og 1 í Árnessýslu.   Einungis einn af þeim sem lögregla hafði afskipti af reyndist ölvaður.

11 umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu í vikunni,  langflest tengd hálku.  Í einu þeirra, þar sem flutningabíll lenti út af vegi í Þrengslunum þann 19. nóvember, meiddist ökumaður og var fluttur til aðhlynningar á sjúkrastofnun.   Bifreiðin valt og farmur hennar, fiskur, dreifðist nokkuð um slysstaðinn.   Nokkurn tíma tók að hreinsa upp og fjarlægja bifreiðina.

3 önnur slys voru tilkynnt til lögreglu í vikunni.  Tvö þeirra urðu á hverasvæðinu við Geysi þar sem ferðamenn féllu og slösuðust.  Í öðru tilfellinu missti viðkomandi meðvitund en í öllum þremur tilvikum voru viðkomandi fluttir til aðhlynningar á sjúkrastofnun.

4 mál er varða ágreining inn á heimili komu upp.  3 í Árnessýslu og 1 í Sveitarfélaginu Hornafirði.   Sinnt í samstarfi við félagsmálayfirvöld eftir því sem við á í hverju tilfelli.  Þremur málanna er lokið en eitt er til rannsóknar hjá rannsóknardeild vegna meintra hótana um ofbeldi.

Slökkvilið var kallað til á Selfossi aðfaranótt 20. nóvember  þegar eldur varð laus í ruslagámi við Tryggvagötu.  Um er að ræða stóran plastgám og logaði glatt í honum þegar lögregla kom á vettvang.  Ljóst er að eldsupptökin eru af mannavöldum og er þess óskað að þeir sem telja sig hafa upplýsingar um þau hafi samband við lögreglu.

Nú er dagurinn stuttur og brýnt fyrir gangandi vegfarendur og líka þá sem eru á reið eða hlaupahjólum að huga að búnaði sínum.  Tryggja þarf sýnileika með endurskinsmerkum og eða vestum og eins að ljósabúnaður sé eins og reglur kveða á um.