23 Mars 2020 11:19

Ökumaður sem missti bifreið sína út af Suðurlandsvegi vestan við Selfoss þann 17. mars s.l. er grunaður um ölvun við akstur. Komið var að honum utan vegar og gisti hann fangaklefa fram til morguns þegar unnt var að ræða við hann sökum ástands.   Hann kannaðist ekki við að hafa verið að aka bifreiðinni í umrætt sinn, sagði félaga sinn sem hann vissi lítil deili á hafa ekið en farið af vettvagngi þegar bifreiðin lenti út af veginum.

Fjórir ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum undir áhrifum fíkniefna í vikunni sem leið. Einn þeirra var stöðvaður vegna brots gegn stöðvunarskyldu og vaknaði grunur umneyslu hans í viðræðum við lögreglumenn. Annar þessara aðila var að aka sviptur ökurétti vegna eldra brots.   Sá þriðji reyndist hafa um 70 grömm af kannabis í fórum sínum ásamt áhöldum sem benda til dreifingar efna.   Sá kvaðst hafa verið að byrgja sig upp vegna yfirvofandi Covid 19 sóttkvíar. Sá fjórði reyndist með lítilræði af kannabis á sér en kannaðist ekki við að hafa neytt slíkra efna.

27 ökumenn eru kærðir fyrir að aka of hratt í vikunni. Nú ber svo við að erlendir ferðamenn eru í algerum minnihluta og íslenskir bera ábyrgð á 20 þessara mála.   Sá sem hraðast ók mældist á 132 km/klst hraða á Suðurlandsvegi við Laufskálavörðu þar sem hámarkshraðinn er 90 km/klst.

Þann 18. mars var tilkynnt um mann á ísnum á Þingvallavatni við veiðar. Símasamband náðist við manninn og honum vísað í landi hið snarasta.   Ís á vatninu mjög ótryggur og að auki ekki heimilt að veiða þar.   Daginn eftir nauðlenti flugmaður eins hreyfils einkaflugvélar vélinni á ísnum skammt frá Sandey eftir að vélarbilun kom upp.   Hvorki hann né farþega sem var með honum um borð sakaði í lendingunni en nefhjól vélarinnar brotnaði undan henni.   Eftir skoðun var ákveðið að bíða með bjögun vélarinnar en ísinn var metinn ótraustur.   Eigandinn fékk síðan þyrluþjónustu til að taka vélina af vatninu þann 21. mars.   Málið er til rannsóknar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku.   Minniháttar meiðsl í tveimur þeirra.   Annarsvegar var um að ræða aftanákeyrslu við gatnamót Biskupstungnabrautar og Suðurlandsvegar um hádegisbil þann 19. mars þar reyndist ökumaður fremri bifreiðarinnar með áverka á hálsi. Hinsvegar var um að ræða árekstur á gatnamótum Álfsstéttar og Eyrarbakkavegar þann 21. mars. Ökumenn beggja bifreiða eru lemstraðir eftir en þó ekki alvarlega.

Eins og allstaðar fer mikill tími viðbragðsaðila í að sinna verkefnum sem tengjast Covid19 faraldri.   Aðgerðastjórn fyrir umdæmið er virk og fundar daglega. Þá er verið að undirbúa vettvangsstjórnir fyrir sín verkefni en reynt er að vinna sem flest verkefni af hálfu aðgerðarstjórnar þar til umfangið verður síkt að skipta þurfi því niður á smærri einingar í nærumhverfi.   Vísum umfjöllun um það allt á vefinn covid.is þar sem haldið er utan um verkefnið á landsvísu.