3 Janúar 2022 11:07

Almennt fór helgihald um áramótin vel fram en þó eru fjölmargir sinubrunar skráðir í liðinni viku, flestir á Nýársnótt þegar eldur frá brennum annarsvegar og flugeldum hins vegar náði í sinu og í einhverjum tilvikum varð af mikill eldur.   Tjón mun ekki hafa orðið mikið en umtalsverður kostnaður við björgunarstörf sem vörðu meira og minna frá því á gamlárskvöld og fram undir hádegi á þann 1. janúar.  Hjálpuðust þar að slökkvilið, björgunarsveitir og lögregla ásamt nærstöddum einstaklingum sem í mörgum tilvikum bruggðust skjótt við og komu í veg fyrir að verulegt tjón yrði.  Varað hafði verið við hættu á gróðureldum fyrir áramótin með auglýsingum í vefmiðlum og eins voru send út SMS skeyti til viðvörunar en það virðist ekki hafa dugað til þess að nægilegrar varkárni væri gætti í öllum tilfellum

Eldur kom upp í vindmyllu í Þykkvabæ þann 1. janúar í miklu óveðri sem gekk yfir þann dag.  Vindmyllan var ekki í framleiðslu rafmagns og hefur staðið um nokkurt skeið í bremsu.   Vindálag virðist hinsvegar hafa orðið svo mikið að hún náði að snúast og við núning hemla hennar orðið það mikill hiti að eldur kviknaði.   Vélbúnaður allur mun vera í toppi mastursins og því líklegt að hann sé ónýtur.   Í ljósi hæðar mastursins og veðurs var ekki reynt að slökkva eldinn heldur tryggt að logandi hlutir sem féllu til jarðar yllu ekki tjóni á öðru í umhverfi myllunnar.  Í mastri myllunnar voru sendar fyrir gsm og mun eitthvað tjón hafa orðið á þeim.

24 ökumenn voru í liðinni viku kærðir fyrir að aka of hratt.   Flestir þeirra ferðamenn á leið sinni um landið.  Lögreglumenn í Vík og á Kirkjubæjarklaustri settu upp umferðarpóst aðfaranótt 1. janúar og leiddi það til þess að einn ökumaður var stöðvaður grunaður um að vera bæði ölvaður og undir áhrifum kannabisefna.  Hann framvísaði jafnframt kannabisefnum sem hann hafði meðferðis til eigin nota að sögn.  Annar ölvaður ökumaður var stöðvaður sömu nótt á Selfossi.  Sá er erlendur ferðamaður að njóta áramótanna á ferðalagi sínu.  Þriðji einstaklingurinn hefði verið stöðvaður á Selfossi þann 27. desember grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.  Hann og farþegi hans framvísuðu báðir efnum sem þeir kváðu ætluð til eigin neyslu.

7 umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku og meiðsl sem teljast minniháttar skráð í 4 þeirra.