6 Desember 2016 11:09

Í liðinni viku voru bókuð 14 umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Í þremur þeirra urðu slys á fólki.   Þann 29. nóvember fór jepplingur erlendra ferðamanna út af þjóðveginum við Skaftafell og valt.  Tvennt var í bílnum og naut það aðhlynningar læknis á Kirkjubæjarklaustri.   Sama dag fór bifreið út af þjóðvegi 1 við Hótel Rangá.  Ökumaðurinn, íslenskur, var fluttur af vettvangi með sjúkrabifreið en meiðsl hans eru ekki talin alvarleg.    Alvarlegasta slysið varð deginum áður þegar bifreið með erlendum ferðamönnum fór út af Suðurlandsvegi austan Víkur og valt.  Kona sem var farþegi í aftursæti bifreiðarinnar kastaðist út og er alvarlega slösuð.  Barn í barnabílstól sem vísbendingar eru um að hafi ekki verið festur í bílinn, virðist hafa kastast út úr bílnum einnig en stóllinn hefur þá tekið við höggunum þegar hann lendir því barnið er nánast ómeitt.  Konan var flutt með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík en eiginmaður hennar og barnið með sjúkrabifreið.

Ökumaður sem reyndist aka of hratt um þéttbýlið á Flúðum þann 1. desember s.l. mældist undir áhrifum kannabisefna við aksturinn. Farþegar bílsins voru einnig færður á lögreglustöð og barnavernd í heimasveit eins þeirra hans gert viðvart um afskiptin enda viðkomandi einungis 17 ára gamall.

Ökumaður sem stöðvaður var við akstur á Hellu þann 3. desember s.l. reyndist undir áhrifum áfengis. Hann var færður til blóðsýnatöku en var frjáls ferða sinna að því loknu.

6 sinnum var tilkynnt um laus hross á vegum í umdæminu. Eigendur búfjár eru hvattir til að gæta að búsmala sínum og að auki eru ökumenn beðnir að gæta varúðar því að í myrkrinu eykst hættan verulega á því að ekið sé á búsmala sem flækist um vegi.