16 Desember 2019 11:30

Aftaka veður gekk yfir landið í liðinni viku. Í umdæmi okkar á Suðurlandinu var það verst í Árnessýslunni og rétt vestast í Rangárvallasýslu. Eins varð hvasst á köflum undir Vatnajökli en svosem eitthvað skaplegra þar á milli. Nokkuð eignatjón varð af veðrinu, líklega umfangsmest það tjón sem varð á þaki Hótel Selfoss en þar fór þakdúkur á nýjum hluta hússins mjög ílla. Ekki eru efni til að bera sig ílla hér enda aðrir landshlutar sem hafa orðið mjög illa úti í veðurofsanum og enn verið að greiða úr þeim málum til bráðabirgða og ljóst að langtíma áhrif eru mikil og kostnaðarsöm.

32 voru kærðir fyrir að aka of hratt í vikunni. Helmingur þeirra var á ferðinni í Öræfum og þar austur af.   Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að aka á meiri hraða en 140 km/klst og voru báðir á Mýrdalssandi.   Einn þeirra ökumanna sem ók of hratt reyndist undir áhrifum fíkniefna. Hann ók bifreið sinni með 113 km/klst hraða á Suðurlandsvegi við Kögunarhól þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst.   Sá var á ferðalagi hérlendis með félaga sínum en félaginn reyndist með lítilræði af fíkniefnum í fórum sínum.   Ökumaðurinn gat ekki framvísað staðfestingu á gildum ökuréttindum.

Annar aðili er grunaður um að hafa ekið bifreið sinni undir áhrifum fíkniefna en hann kom á lögreglustöðina á Selfossi annarra erinda en var handtekinn þegar ljóst varð um ástand hans.   Tveir einstaklingar eru grunaðir um ölvun við akstur, annar á Selfossi en hinn í Hveragerði.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir vegna þess að þeir voru að nota farsíma sinn án handfrjáls búnaðar samhliða akstri. Þá reyndist ökumaður fólksflutningabifreiðar sem stöðvuð var vera með útrunnin réttindi til aksturs slíkrar bifreiðar.   Fullt tilefni er til þess að hvetja atvinnumenn í akstri til þess að kíkja á bakhlið ökuskírteinis síns og kanna hver gildistími aukinna ökuréttinda er því það gerist alltaf af og til að kyrrsetja þurfi hóp fólks þar sem bílstjórinn þeirra reynist ekki með réttindi sín í lagi.

Þrír ökumenn fólksflutningabifreiða reyndust voru ekki með ökumannskort sitt í ökurita bifreiða sem þeir óku.

20 umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í vikunni.   Minniháttar meiðsl urðu í 4 þeirra en engin alvarleg.