31 Janúar 2022 12:00

Bifreið, sem ekið var um Suðurlandsveg við Blautukvísl þann 29. janúar, mældist á 172 km/klst hraða en þar er leyfður hámarkshraði 90 km/klst.   Ökumaðurinn, erlendur ferðamaður,  gekkst undir sektargreiðslu að upphæð 250 þúsund krónur, sviptur ökurétti í 3 mánuði og fær að auki 3 punkta í ökuferilsskrá.   Aðrir 10 sem stöðvaðir voru vegna hraðaksturs óku hægar.   Af þeim voru 3  á hraðferð við Jökulsárlón í Sveitarfélaginu Hornafirði.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir á Suðurlandi í liðinni viku vegna gruns um að þeir væru að aka undir áhrifum ávana- eða fíkjniefna.   Í báðum tilfellum var um að ræða einstaklinga sem áður hefur þurft að hafa afskipti af vegna sambærilegra mála og viðkomandi að aka sviptir ökuréttindum vegna fyrri brota.  Þá var einn ökumaður kærður fyrir að aka ölvaður og sviptur ökurétti.

Ökumaður sem stöðvaður var í almennu umferðareftirliti á Suðurlandsvegi þann 26. janúar reyndist eiga að vera í einangrun vegna virks Covid smits.   Hann má eiga von á sekt vegna brots síns.

Tveir ökumenn kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða sinna.

Umráðamaður ökutækis kom að bifreið sinni í bílastæði á Selfossi þann 28. janúar á Austurvegi á Selfossi þar sem stungið hafði verið á öll 4 dekk hennar.   Ekki liggur fyrir hver hefur unnið skemmdarverkið og er þess óskað að þeir sem um þetta vita hafi samband við lögregluna í síma 444 2000 eða með tölvupósti á sudurland@logreglan.is

Kona slasaðist þegar hún féll af vélsleða á Langjökli þann 29. janúar s.l.   Hún flutt til móts við sjúkrabifreið við Gullfoss og þaðan á heilbrigðisstofnun.  Á leið sinni á sjúkrahús á Selfossi komu sjúkraflutningamenn við  við Faxa en þar hafði kona dottið og meiðst á fæti.  Búið um hana og sjúkrabifreiðin notuð sem skjól þar til önnur kom á vettvang til að flytja hana.

Hestamaður féll af hestbaki í Flóa þann 27. janúar s.l. Fluttur með hraði á sjúkrahús en er á batavegi og minna meiddur en fyrsta skoðun á vettvangi gaf tilefni til að ætla.

6 umferðarslys voru tilkynnt til lögreglunnar í liðinni viku.  Öll án teljandi meiðsla á fólki.

Veður var misjafnt í liðinni viku.  Þann 25. janúar var tilkynnt um trampolín á ferðinni á Eyrarbakka án þess þó að það ylli tjóni.   Við sem  héldum að þau væru öll fokin nú þegar.  Þakplötur fuku í Ölfusi, í Vík losnaði þak á húsi.  Þakplötur losnuðu á útihúsi í Ásahreppi og kerra fauk í Hveragerði.    Fleiri útköll urðu og björgunarsveitir að vanda klárar í verkefnin og þeim hér með þakkað, líkt og svo oft áður fyrir þeirra ómetanlega framlag.