18 Október 2021 09:49

3 þeirra ökumanna sem stöðvaðir voru á bifreiðum sínum í liðinni viku á Suðurlandi eru grunaðir um ölvun við akstur.  Einn þeirra var á ferð í Sveitarfélaginu Hornafirði en hinir tveir í Arnessýslu.   Mál þeirra bíða niðurstöðu rannsóknar blóðsýna og fá sinn farveg á grundvelli hennar.

Akstur vöruflutningabifreiðar á Suðurlandsvegi var stöðvaður þann 13. október og í framhaldi af því var bifreiðin vigtuð.   Reyndist rétt undir 55 tonnum en mátti vera 49 tonn.    Lokið með sekt.

Þá voru höfð afskipti af tveimur bifreiðum sem hvor um sig dró kerru, annar með heyrúllum en hinn með snjósleða.   Hvorugur ökumaðurinn hafði bundið farminn á kerruna og var þeim gert að ganga frá þannig að flutningurinn væri tryggur.   Mega vænta sektar fyrir brotið.

13 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu.  Akstursskilyrði voru misjöfn og nú má gera ráð fyrir því að veður fari að trufla ökumenn frekar.    Það var reyndin víða í umdæminu vestanverðu í gær þegar snjór og krap á vegi varð þess valdandi að ökumenn sem ekki óku nógu gætilega misstu stjórn á bílum sínum og lentu út af vegi.   Ekki er vitað til þess að slys hafi orðið á fólki.

6 stór ökutæki voru tekin til vegaskoðunar af lögreglu í vikunni.  Öll án athugasemda.

10 umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku, víðsvegar í umdæminu.    Ekki urðu alvarleg slys á fólki í þessum tilvikum.

Í morgun var slökkvilið í Vík ræst út en eldur var laus í íbúðarhúsi í þorpinu.   Greiðlega gekk að ráða niðurlögum eldsins en húsið er gamalt og einangrað með heyi að sögn.   Ekki urðu slys á fólki.  Nokkrar skemmdir eru af völdum elds, vatns  og reyks.  Rannsókn eldsupptaka stendur yfir en grunur beinist að rafbúnaði ljóss í húsinu.