19 Júlí 2021 10:10
Í heild fór liðin vika nokkuð vel fram á Suðurlandinu. Mikil umferð er um vegi og ljóst að erlendum ferðamönnum fjölgar hratt. Þó voru færri á tjaldsvæðum hér sunnanmegin en vikuna á undan en líklega hefur framboð á sólardögum norðanlands, og austan haft þar áhrif.
63 ökumenn voru í liðinni viku kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Einn þeirra mældist á 184 km/klst hraða á Biskupstungnabraut við Tannastaði en þar er leyfður hámarkshraði 90 km/klst. Hann var sviptur ökurétti á staðnum og bíður nú málsmeðferðar á ákærusviði. Annar ökumaður mældist á 154 km/klst á Suðurlandsvegi við Dalsel þann 13. júlí og var þar um erlendan ferðamann að ræða. Þriðja bifreiðin var mæld á 147 km/klst á Suðurlandsvegi við Rauðalæk þann 14. júlí og þar, líkt og með ökumanninn á Biskupstungnabraut, um Íslending að ræða.
Afskipti voru höfð af fjórum ökumönnum sem grunaðir eru um að hafa ekið bifreiðum sínum undir áhrifum áfengis, tveir þeirra gáfu líka jákvæða svörun í fíkniefnaprófi. Mál viðkomandi bíða niðurstöðu blóðrannsóknar.
13 umferðaróhöpp/slys voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku, af þeim 5 í Sveitarfélaginu Hornafirði. Þann 18. júlí féll féll ökumaður af hjóli sínu á vegakafla austan Péturseyjar þar sem unnið er að vegagerð. Hann fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar. Grunur um að hann sé fótbrotinn. Sama dag fóru viðbragðsaðilar í Skaftárdal þar sem maður slasaðist þegar fjórhjól sem hann ók valt. Hann fluttur til aðhlynningar á sjúkrastofnun en upplýsingar um meiðsl hans liggja ekki fyrir.
Maður slasaðist við stillingu á beisli rúllubindivélar í Grímsnesi í gær. Klemmdi handlegg þegar festing í beislinu gaf sig og festist þar með. Hann losaður úr vélinni og fluttur til aðhlynningar á sjúkrastofnun en er ekki talinn alvarlega slasaður.
16 stór ökutæki voru tekin og skoðuðu vegaskoðun í liðinni viku. Af þeim eitt boðað til frekari skoðunar í skoðunarstöð vegna ástands.