21 Febrúar 2022 13:13

Töluverður erill var hjá björgunarsveitum og viðbragðsaðilum öllum þi hvassviðri sem gekk yfir landið í gær.   Tjón varð á sumarhúsi í Fljótshlíð og rúður brotnuðu í íbúðarhúsnæði og í bílum í Öræfum.  Þá þurfti að aðastoða vegfarendur vegna ófærðar víða um Suðurlandið, einkum á svæðinu frá Hvolsvelli  og þar austan við.

Snjóhengja féll á tvo dengi sem voru að leik við Hamarinn í Hveragerði á laugardag.   Þar voru bræður á ferð og náði sá eldri að kalla til aðstoðar og hefja björgunaraðgerðir strax á vettvangi með því að staðsetja og hreinsa snjó frá vitum þess yngri.    Björgunarsveitir  frá Hveragerði og Selfossi komu til aðstoðar sjúkraliði og var drengurinn fluttur á sjúkrahús á Selfossi þar sem í ljós kom að áverkar voru algerlega minniháttar.

4 ára drengur féll í sprungu við Hakið á Þingvöllum þann 15. febrúar.   Björgunarsveitir kallaðar til en nærstaddur björgunarsveitarmaður við aðra vinnu á svæðinu fór í snatri í sprunguna og hlúði að drengnum þar til hann var hífður upp.  Meiðslin talin minniháttar.

Skurðir eru nú að fyllast eða fullir af snjó og girðingar víða í kafi.  Það þýðir að vænta má þess að hross leggi leið sína út á vegi og skynsamlegt að hafa það í huga  þegar farið er um sveitir landisins.   Þannig bárust tilkynningar um laus hross við Múla í Biskupstungum og reyndar um hreindýr austur undir Höfn en það mun flóknara að girða svo það haldi þeim hvort sem snjóar eða ekki.

Tveir ökumenn, annar í Árnesssýslu en hinn í Rangárvallasýslu, voru stöðvaðir í liðinni viku vegna gruns um að þeir væru ölvaðir við akstur bifreiða sinna.   Annar til er grunaður um að hafa ekið bifreið sinni undir áhrifum fíkniefna.  Sá var stöðvaður í V-Skaftafellssýslu en í fórum hans fundust kannabisefni.   Tveir þessara þriggja ökumanna eru erlendir ferðamenn með stutta viðkomu hér á landi.

Ökumaður vöruflutningabifreiðar reyndist ekki nota ökuritaskífu við akstur bifreiðar sinnar um Suðurlandsveg vestan Selfoss þann 17. febrúar.    Hann á von á sekt fyrir brot sitt sem og rekstraraðili bifreiðarinnar.

Ökumaður fólksflutningabifreiðar sem stöðvuð var í Vík reyndist með útrunnin ökuréttindi frá 2018 og ekki með ökumannskort í ökurita.   Bifreiðin kyrrsett og sendi rekstraraðili annan bílstjóra úr Reykjavík til að taka við.  Ökumaðurinn situr uppi með sekt.

Annar sem stöðvaður var á Suðurlandsvegi við Selfoss reyndist nota ökumannskort annars manns í ökuritann.   Bæði hann og rekstraraðili bifreiðarinnar fá sekt vegna þessa.

Ökumaður pallbíls á Selfossi var stöðvaður fyrir að flytja farþega á palli bifreiðarinnar aðfaranótt 21. febrúar.   Annar var kærður fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur.

21 ökumaður var kærður fyrir að aka of hratt.   Af þeim voru 20 á svæðinu í kring um Vík og Kirkjubæjarklaustur en 1 í Árnessýslu.

14 umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku.  Flest án meiðsla.  Í einu tilvikinu var um að ræða árekstur 5 til 6  bíla við Stigá í Sveitarfélaginu Hornafirði þar sem ófærð hamlaði umferð um veginn.  Ekki slys á fólki en björgunarsveit kölluð til til aðstoðar við málsaðila.