24 Ágúst 2020 11:42

114 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt á Suðurlandi í liðinni viku. Af þeim voru 62 sem voru á ferð á starfssvæði lögreglustöðvarinnar á Selfossi, 19 á starfssvæði lögreglustöðvar á Hvolsvelli, 21 á starfssvæði lögreglustöðvanna í Vík og á Kirkjubæjarklaustri, 5 á starfssvæði Hafnarmanna og að auki 7 sem lögreglumenn í sérstöku umferðareftirliti með stórum ökutækjum stöðvuðu svona inn á milli annarra verkefna.   Þetta eru þó ekki alveg heilagar staðsetningar í tölfræðinni því mikið samstarf er á milli starfssvæða og þannig gæti lögreglumaður frá Vík hafa gripið einhvern ökumanninn í Árnessýslu á leið sinni frá því að ferja „Covid“ sýni til rannsóknar eða önnur verkefni þar sem menn hafa farið á milli starfssvæða leitt til einhverra slíkra verkefna.  Allt að einu þá nema álagðar sektir vegna þessara mála nærri 2,5 milljónum og nú er skiptingin þannig að það er um helmingur þeirra sem höfð voru afskipti af eru íslenskir en hinn helmingurinn með erlenda kennitölu.

12 ökumenn reyndust vera að aka sviptir ökurétti.

Einn ökumaður er grunaður um að hafa ekið bifreið sinni ölvaður.   Hinsvegar eru 8 ökumenn grunaðir um akstur undir áhrifum ávana og fíkniefna og eru tveir þeirra meðal þeirra sem fjallað er um hér að ofan vegna hraðakstra.     Einn þessara ökumanna kvaddi þegar hann var látinn laus úr höndum lögreglu með því að brjóta rúðu í lögreglubifreið við viðkomandi stöð og sætir nú kæru vegna eignaspjalla.   Rúðubrotið er til á upptöku öryggismyndavéla við viðkomandi stöð.

Sjö mál eru skráð þar sem ekið er á búfénað og í umdæminu, í einu tilfelli var ekið á kött og í öðru tilfelli á hund. Í öllum tilfellum er, auk slysa á húsdýrunum, um eignatjón á ökutækjum að ræða.

Lögreglumenn voru við eftirlit á hálendinu Sunnanlands í vikunni. Allir þeir ökumenn sem afskipti voru höfð af, þ.m.t. við fólksflutninga, reyndust með sín mál í lagi.   Töluverð umferð er um hálendisvegi ennþá og margir á göngu á þekktum leiðum bæði á Fjallabaksleiðunum, í Þórsmörk og þar í kring og eins um Lónsöræfi.

Eftirlitsferðir voru farnar á veitingastaði vegna sóttvarnaráðstafana sem í gildi eru.   Ljóst er að betur má ef duga skal.   Einn aðili var kærður vegna meints rofs á sóttkví.  Hann bar því við hafa ekki áttað sig á því að honum væri skylt að vera í heimkomusmitgát eftir komu frá því landi sem hann ferðaðist frá.  Hafði brugðið sér í sundlaugina sér til hressingar.   Málið sent ákæruvaldi til ákvörðunar.