25 Apríl 2022 16:26

Flugmaður svifvængs slasaðist þegar hann féll til jarðar úr einhverra metra hæð í flugi við Hlíðarvatn í Ölfusi þann 24. apríl s.l.   Maðurinn var fluttur með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík, ekki talinn í lífshættu en þó alvarlega slasaður.   Málið er til rannsóknar líkt og skylt er um slys.

Ökumaður fólksbifreiðar slasaðist lítillega þegar bifreið hans lenti út af Þorlákshafnarvegi og valt þann 18. apríl s.l.  Hann kom sér sjálfur til læknis, litillega skrámaður en taldi sjálfur ekki þörf á aðstoð.

Umferðaróhapp varð í Hvalnesskriðum þann 22. apríl s.l. þegar bifreið sem ekið var austur þjóðveg nr. 1 varð fyrir grjóti sem féll úr hlíðinni ofan við veginn.   Engan sakaði í bílnum en nokkurt tjón varð á honum.   Viðkomandi, ásamt samferðamönnum komu grjótinu út fyrir veg og bílnum í ökuhæft ástand og héldu för sinni áfram.

Erlendur einstaklingur var staðinn að því að hnupla skópari úr verslun í Vík þann 23. apríl s.l.  Hafði komið skónum fyrir undir sólpalli við íbúðarhús þar í bæ þegar lögregla kom að og kannaðist litið við málið.   Yfirheyrður um sakargiftir og síðan sleppt en málið heldur áfram til ákærusviðs til ákvörðunar um framhald.

Fíkniefni fundust á ökumanni bifreiðar sem stöðvuð var á Selfossi þann 24. apríl.   Jafnframt fundust efni í bifreiðinni sjálfri auk tóla til neyslu þeirra.   Ökumaðurinn kannaðist við að eiga efnin og hafa ætlað þau til eigin neyslu.

2 ökumenn, sem stöðvaðir voru í umferðinni í vikunni eru grunaðir um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.  Annar til er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis.

43 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu.  7 þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði, 12 í Rangárvallasýslu og 20 í Árnessýslu.   4 í V. Skaftafellssýslu.

Á föstudag var flak flugvélarinnar TF ABB híft upp úr Þingvallavatni en þar hafði vélin verið síðan þann 3. febrúar s.l.  Vélinn fannst við leit með sónarkafbát þann 5. febrúar og í framhaldi af því lík þeirra fjögurra sem í henni höfðu verið.   Þeim var, sem kunnugt er, náð á land þann 10. febrúar.  Aðgerðaáætlun um björgun vélarinnar sjálfrar var unnin sem samstarfsverkefni af þeim hagsmunaaðilum sem að verkefninu komu og unnið eftir henni með þessum árangri s.l. föstudag.    Lítilræði af mótorolíu losaði í vatnið þegar farið var að hreyfa við vélinni á botni vatnsins en við því hafði verið búist og tókst að fanga hana í flotgirðingu sem Brunavarnir Árnessýslu lögðu til og þar með að tryggja að ekki hlytist mengun af verkinu.   Vélin var síðan flutt á vörubílspalli í flugskýli í Reykjavík hvar framhaldsrannsókn á flakinu fer fram.    Ljóst er að sú vinna er tímafrek og lokaniðurstaðna ekki að vænta í bráð.   Ekki er að vænta upplýsinga frá lögreglu um niðurstöðu einstakra rannsóknarþátta.

Lögreglan á Suðurlandi vill þakka öllum þeim sem aðstoðað hafa við þetta verkefni, með einhverjum hætti,  frá fyrsta degi, sérstaklega fyrir þeirra aðkomu.  Ferlið hefur verið margþætt en um leið sýnt fram á einstaka hæfni viðbragðsaðila og verktaka til að leysa flókin verkefni á skilvirkan og fumlausan hátt.