27 Júní 2022 14:32

4 ökumenn voru stöðvaðir á Suðurlandi vegna gruns um að þeir væru að aka ölvaðir.   Einn þeirra á Höfn en hinir í Árnessýslu.   Einn þeirra endaði akstur sinn úti í móa skammt frá Grímsborgum en án alvarlegra meiðsla þó.  Aðrir 2 voru stöðvaðri vegna gruns um að þeir væru undir áhrifum fíkniefna eða lyfja við aksturinn.

27 voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku.   2 þeirra í V. Skaftafellssýslu, 4 í Sveitarfélaginu Hornafriði, 8 í Rangárþingi og 13 í Árnessýslu.

Tvö heimilisofbeldismál komu upp um liðna helgi, annað í Rangárþingi en hitt í Árnessýslu og var sitthvorum aðilanum brottvísað af heimilunum og sæta nú nálgunarbanni.

Þann 26. júní kom í ljós að brotist hafði verið inn í s.k. „Fjölmiðlagám“ á íþróttsvæðinu við Engjaveg á Selfossi.   Viðkomandi virðist hafa reynt að bera eld að innanstokksmunum þar.   Við biðjum þá sem mögulega hafa upplýsingar um þetta að hafa samband við lögreglu.

Karlmaður var handtekinn á aðfaranótt 26. júní s.l. á Eyrarbakka grunaður um líkamsárás á annan en báðir voru gestir á veitingastað þar.   Hann svaf úr sér í klefa um nóttina og var yfirheyrður um málsatvik daginn eftir.  Beðið er niðurstaðna um alvarleika áverka þess er fyrir árásinni mun hafa orðið.

Tilkynnt var um nytjastuld á bifreið á Selfossi þann 25. júní.  Bifreiðin fannst sama dag í Reykjavík og var par handtekið þar grunað um nytjastuldinn.    Þau flutt á Selfoss og vistuð þar og yfirheyrð  daginn eftir handtöku enda óviðræðuhæf vegna vímu þegar þau voru handtekin.   Eitthvað tjón er á bifreiðinni.