27 Júlí 2020 10:24

Áður en við förum í verkefni liðinnar viku skulum við rifja aðeins upp samfélagssáttmálann, „Í okkar höndum“ vegna útbreiðslu kóronuveirunnar á liðnum mánuðum.   Megininntak sáttmálans er að til þess að tryggja góðan árangur áfram skuldbindum við okkur til að virða ákveðin grunnatriði þegar kemur að smitgát. Þau eru þessi:

 • Þvoum okkur um hendur
 • Sprittum hendur
 • Munum 2 metra fjarlægð
 • Sótthreinsum sameiginlega snertifleti
 • Verndum viðkvæma hópa
 • Hringjum í heilsugæsluna ef við fáum einkenni
 • Tökum áfram sýni
 • Virðum sóttkví
 • Virðum einangrun
 • Veitum áfram góða þjónustu
 • Miðlum traustum upplýsingum
 • Verum skilningsrík, tillitssöm, kurteis og styðjum hvert annað

Undanfarnar hafa margir verið á ferð um landið og almennt gengið vel. Mikilvægt er að halda því áfram og muna að við erum öll almannavarnir – og verðum það áfram.

Fjölmenni hefur verið á tjaldsvæðum um allt umdæmið.   Lögregla þurfti að hafa einhver afskipti af ungmennum á tjaldsvæði við Laugarvatn um liðna helgi. Aðstoðaði fjölskyldufólk við að komast af svæðinu og stillti til friðar.   Einhverjum var vísað burt af svæðinu. Einn var fluttur í járnum á Selfoss en var orðinn rólegur þegar þangað kom og tók móðir hans við honum.

Á Höfn þurfti lögregla að stilla til friðar vegna óspekta á tjaldstæðinu þar. Einhverjir munu hafa sint fótboltaæfingum inni á milli tjalda í óþökk annarra tjaldbúa.

Í liðinni viku voru 97 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu. 2 þeirra eru mældir á 140 km/klst hraða eða meira á 90 km/klst vegi.   Tveir þessara 97 ökumanna eru ungir og fengu með brotum sínum punkta í ökuferilsskár sem kom þeim í eða yfir 4 punkta. Þeir voru því, samkvæmt reglunum, settir í akstursbann og fá ekki að aka fyrr en að afloknu sérstöku námskeiði fyrir þá sem sæta akstursbanni. Nú þýðir ekkert að bera fyrir sig að erlendu ferðamennirnir séu til vandræða því um ¾ þeirra sem afskipti voru höfð af eru með íslenska kennitölu. Sömu dagsetningar í fyrra gefa okkur svipaðan málafjölda en þá voru það erlendu ferðamennirnir sem áttu ¾ hluta málanna. Ljóst er að við getum gert betur.

Einn ökumaður er grunaður um akstur undir áhirfum áfengis. Annar um akstur undir áhrifum áfengis og ávana og fíkniefna og sá þriðji um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna eingöngu. Allir voru þessir ökumenn á ferð í Árnessýslu.

Rúða var brotin í kennslustofu við Norðurhóla á Selfossi í liðinni viku.   Tilkynning barst til lögreglu þann 26. júlí. Þann 24. Júlí var tilkynnt um að rúða hafi verið brotin í Fjölheimum á Selfossi og virðist gangstéttarhella hafa verið notuð til verksins.   Bæði þessi mál eru óupplýst og eru þeir sem hafa upplýsingar um þau beðnir um að gera lögreglu viðvart.     Rúður voru brotnar í bíl á sumarbústaðasvæði við Laugarvatn á sunnudagsmorguninn.   Meintur gerandi handtekinn á vettvangi og yfirheyrður um málsatvik.   Gat litlar skýringar gefið á hegðun sinni.