28 September 2020 11:48

Tvennt er það sem við viljum byrja á því að biðja foreldra og forráðamenn barna að athuga nú með haustinu.   Annarsvega er rétt að minna á ákvæði um útivistartíma barna en hann breyttist skv. venju þann 1. september s.l. Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu.

Hitt atriðið er þetta með endurskinsmerkin og ljósin á hjólunum.   Munum að gæta að því að á fatnaði barna (og fullorðinna) séu endurskinsmerki sem sjást bæði framanfrá og aftanfrá. Endurskinsmerki á baki yfirhafnar sést ekki ef búið er að hengja skólatöskuna á bakið yfir merkið. Mjög gott er að vera með endurskinsmerki hangandi úr hliðarvösum yfirhafna. Þannig sjást þau bæði framanfrá og aftanfrá og það er hægt að stinga þeim í vasann án þess að losa þau þegar verið er að leika sér í leiktækjum eða þegar komið er inn í hús.

Þann 24. september var slökkvilið kallað til að vinnustað á Selfossi þar sem starfsmaður hafði unnið við að brenna illgresi með vegg á húsi með gasbrennara.   Ekki vildi betur til en svo að eldurinn náði í einangrun og varð smávægilegt tjón af.

Þann 25. september var slökkvilið kallað til þegar eldur í því sem virðist hafa verið ruslabrenna náði í gróður við byggingarstað í neðanverðri Árnessýslu.   Greiðlega gekk að slökkva eldinn en í þessu sambandi er rétt að minna á að rusli á að skila á gáma- og mótttökusvæði fyrir það og ruslabrennsla á viðavangi er bönnuð. Málum sem þessum er að jafnaði lokið með sektum þannig að sparnaðurinn af því að fara ekki ruslaferðina „brennur“ hratt upp með þessum hætti.

Tveir ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum undir áhrifum áfengis í liðinni viku. Annar í Árnessýslu en hinn í Sveitarfélaginu Hornarfjörður. Þriðji aðilinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, sá var í Árnessýslu og við framkvæmd öryggisleitar á honum fannst „neysluskammtur“ af ætluðu amfetamíni annarsvegar og kannabis hinsvegar.

39 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku. Af þeim voru 25 á svæðinu í kring um Vík og Kirkjubæjarklaustur og þar var jafnframt sé sem hraðast ók en bifreið hans mældist á 148 km/klst hraða Um var að ræða erlendan ferðamann sem gekkst við broti sínu, greiddi sekt sína og var sviptur ökurétti í 1 mánuð. Aðrir 6 ferðamenn reyndust aka of hratt en á öðrum brotum eru íslenskir ábyrgir.

Tveir ökumenn reyndust vera að aka sviptir ökurétti. Tveir aðrir höfðu aldrei öðlast ökuréttindi og einn til viðbótar var með útrunnin réttindi til stjórnar stórrar bifreiðar sem hann ók.