5 Október 2021 12:06

Dýralífið er alltaf hluti af vinnu lögreglumanna og á það við um liðna viku eins og aðrar.   Tilkynnt var um kind í sjálfheldu í klettum í Reykjadal í Ölfusi.   Haft samband við formann fjallskilanefndar sem þá hafði fengið veður af dýrinu og gert ráðstafanir til að bjarga málum.   Á Höfn var tilkynnt um lausan hund af stærri gerðinni.  Lögregla fór á vettvang en eigandi þá búinn að ná honum og tryggja.   Þá kom ökumaður á stöð á Höfn með kött sem hann kvað hafa orðið fyrir bíl.  Lesið á örmerki og kettinum komið í hendur eiganda.   Á Suðurlandsvegi við Rauðalæk voru 7 hross laus á vegi og af þeim allnokkur hætta.  Sjúkraflutningamenn á leið heim úr flutningi  ráku hrossin inn á næsta afleggjara og bóndi í nágrenninu tók síðan að sér að greiða úr málum hvort sem hann ætti hrossin eða einhver annar.   Leiðsögumaður með hóp ferðamanna sá til ferða hreindýrs við Fellsfjall í Sveitarfélaginu Hornafirði.  Dýrið laskað á fæti.   Algengt mun vera að tarfar séu laskaðir á þessum tíma enda fengitími hreindýra að ganga í garð og barátta í tarfahópnum um kvenhilli.   Fátt hægt að aðhafast í þeim málum.

Í liðinni viku voru 6  aðilar stöðvaðir vegna gruns um að þeir væru ýmist ölvaðir eða undir áhrifum fíkniefna við akstur bifreiða sinna nú eða hvorutveggja.    Einn þessara aðila var tekinn í tvígang með tæplega þriggja tíma  millibili.  Málin bíða niðurstöðu blóðsýnarannsóknar og fá sinn framgang eftir þeirri niðurstöðu.

Í tveimur málum voru höfð afskipti af ökutækjum sem fluttu óbundinn fram.  Í öðru málinu, á Biskupstungnabraut, var akstur ökutækis stöðvaður vegna óbundinnar beltagröfu á palli bifreiðarinnar.   Í hitt skiptið var akstur bifreiðar sem dró kerru með smágröfu stöðvaður.  Grafan óbundin.

42 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt í vikunni.   Af þeim voru 18 á ferðinni í kring um Vík og Kirkjubæjarklaustur.  5 í Sveitarfélaginu Hornafirði 6 í Rangárþingi og Ásahreppi og 13 í fyrrum Árnessýslu.

1680 ökumenn hafa nú verið kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu það sem af er árs.  Í þeirra hópi hefur erlendum ferðamönnum fjölgað en þó ekki náð þeim hæðum sem var fyrir Covid faraldur.

Tvö heimilisofbeldismál voru tilkynnt til lögreglu í vikunni og hljóta þau venjubundna meðferð og samráð haft við viðkomandi félagsmálayfirvöld um úrvinnslu.

Tveir menn gistu fangageymslur eftir að hafa, að kvöldi 3. október,  slegist á dvalarstað sínum í V-Skaftafellssýslu.   Þeir yfirheyrðir daginn eftir og telst málið upplýst enda þó enn sé unnið að gagnaöflun.   Áverkar eru minniháttar en  eggvopni mun hafa verið dregið upp í átökunum.

9 ökutæki voru tekin til s.k. vegaskoðunar og að auki sett á færanlegan  hemlaprófara sem lögregluliðin á Suður, Vestur og Norðurlandi Eystra eiga í samstarfi.  Niðurstaðan góð af þessum skoðunum og ökutæki almennt í þokkalegu lagi.