11 Apríl 2022 10:50

30 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt a Suðurlandi í liðinni viku.  Einn þeirra, erlendur ferðamaður, var stöðvaður á bílaleigubíl á Mýrdalssandi á 161 km/klst hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst.  Gekkst undir sektargerð og greiddi á vettvangi 172.500 krónur í sekt (Sektin 230 þúsund en 25% afsáttur ef greitt er innan 30 daga) og að auki sviptur ökurétti í 2 mánuði.  Annar ökumaður sem stöðvaður var á Suðurlandsvegi við Dalsel í Rangárþingi á 123 km/klst hraða reyndist ölvaður og lauk þar með akstri þann daginn.   Málið bíður niðurstöðu blóðsýnarannsóknar.  Sama á við um mál ökumanns sem stöðvaður var á Suðurlandsvegi við Landvegamót eftir að hraði bifreiðar hans mældist 113 km/klst en hann reyndist sviptur ökurétti og að auki undir áhrifum fíkniefna.

2 aðrir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og reyndust báðir með fíkniefni í fórum sér.  Aðrir 2 vegna gruns um að þeir væru ölvaðir við akstur.

Ökumaður rútu sem afskipti voru höfð af við farþegaflutninga í Mýrdal reyndist ekki hafa ökumannskort til notkunar í ökurita.   Hann og rekstraraðili bílsins sektaðir fyrir brotið.

Jeppi sem dró óskráða kerru með tveimur heyrúllum á Eyrabakkavegi var stöðvaður og kerran sett á vigt.  Reyndist vel yfir þeim 750 kg. sem hemlalaus kerra má vera og því má ökumaður búast við sekt vegna brots síns.

Einn ökumaður kærður fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiðar sinnar.

Barn var flutt til aðhlynningar á Heilsugæslu á Selfossi og síðan til frekari aðstoðar í Reykjavík eftir að hundur á sveitabæ í uppsveitum Árnessýslu beit það í andlitið.  Barnið, sem mun hafa verið gestkomandi á bænum, komið heim að kvöldi dags eftir að gert hafði verið að sárum þess.

Eitt mál varðandi heimilisofbeldi kom upp í liðinni viku.  Það til meðferðar eftir viðeigandi ferlum.  Annað mál, óskylt því fyrra,  er varðar brot á nálgunarbanni kom upp og er í venjubundnum rannsóknarfarvegi.

Ferðamaður öklabrotnaði á göngu í íshelli í austanverðum Breiðamerkurjökli þann 6. apríl.  Björgunarsveitir kallaðar til aðstoðar og viðkomandi borinn í farartæki og síðan fluttur til móts við sjúkrabifreið.  Aðgerðinn tók um 3 klst.

8 umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu en meiðsl einungis skráð í einu þeirra.  Þar var um að ræða bifreið sem lenti út af vegi sunnan við Gullfoss og valt.  Ökumaður einn í bílnum og komst út af sjálfsdáðum en var fluttur til aðhlynningar á sjúkrahúsi.