13 Desember 2021 15:41
Þrír ökumenn voru í liðinni vikukærðir fyrir að aka bifreiðum sínum undir áhrifum áfengis. Sá fjórði er, auk gruns um ölvun, einnig grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn en hann var á Hellisheiði og hafði á leið sinni rekist utan í aðra bifreið sem þar var á ferð án þess þó að meiðsl hlytust af. Sá reyndist einnig sviptur ökurétti vegna fyrri brota. Málin fara í hefðbundinn farveg og bíða niðurstöðu rannsóknar á blóðsýnum.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að aka með börn í bílum sínum án þess að þau væru fest með viðeigandi verndar/öryggisbúnaði. Lokið með sekt.
4 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku. Fjölmargir voru stöðvaðir vegna eftirlits með ástandi og réttindum manna í umferðinni og reyndust flestir með sitt í lagi. Gerðar voru athugasemdir við ljósabúnað eftir því sem við á og brýnt fyrir mönnum að hafa hann í lagi nú í svartasta skammdeginu. Þá verður gamla vísan um endurskinsmerki aldrei of oft kveðin.
Ökumaður á leið um Suðurlandsveg vestan við Hala í Suðursveit þann 10. desember s.l. varð fyrir því óhappi að aka á hreindýr. Dýrið drapst og nokkurt tjón varð á ökutækinu en ekki slys á fólki. Sama dag lenti bifreið sem dró hestakerru með þremur hestum í út af Þykkvabæjarvegi. Ekki slys á fólki eða dýrum en eignatjón nokkurt.
Farþegi á snjósleða á Mýrdalsjökli slasaðist þegar hann féll af sleðanum í ferð þann 7. desember s.l. Hann fluttur á sjúkrahús en reyndist ekki alvarlega slasaður. Um ferðamann í skipulagðri ferð var að ræða.
Barn varð fyrir bifreið við gangbraut Tryggvagötu við Miðengi á Selfossi þann 6. desember. Barnið flutt á sjúkrahús með höfuðáverka. Málið í rannsókn hjá lögreglu. Myrkur var og hálka á vettvangi þegar slysið varð.
Olíuflutningabifreið valt á Oddgeirshólavegi þann 6. desember. Ekki urðu slys á fólki og olía fór ekki af bílnum. Einnig þar var ísing á vegi og mikil hálka.