14 Júní 2021 11:19

Karlmaður slasaðist á fæti þegar stigi rann undan honum þar sem hann var við vinnu í stiga við hús sitt í Árnessýslu þann 10. júní s.l.   Fallið um 2 metrar og hann mögulega fótbrotinn.

Maður missti fingur þegar hann klemmdist á glussatjakki við vinnu við að ferma vörubifreið í Þorlákshöfn þann 9. júní. Hann fluttur á sjúkrahús og fingurinn með en ekki fylgir sögunni hvort tekist hafi að græða hann á stúfinn.

Stúlka slasaðist þegar hún féll af rafknúnu hlaupahjóli á Selfossi þann 8. júní s.l. Hún flutt með sjúkrabifreið undir læknis hendur en upplýsingar um meiðsl hennar liggja ekki fyrir. Þau eru þó ekki talin alvarleg.

Maður skarst á hendi þegar hann var að vinna við járningar í Rangárvallasýslu þann 8. júní.   Hann fluttur af samferðafólki á móti sjúkrabifreið og síðan á heilsugæsluna á Selfossi til aðhlynningar.

54 voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku. Af þeim eru 40 með íslenska kennitölu en 14 erlendir ferðamenn.   Álagðar sektir vegna brota brotanna nema um 3,7 milljónum króna.

4 ökumenn sæta rannsókn vegna gruns um að þeir hafi verið undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna við akstur bifreiða sinna í vikunni.   Mál þeirra bíða niðurstöðu blóðsýnarannsóknar og ákvarðast ferli þeirra eftir þeirri niðurstöðu.   Einn þessara ökumanna hafði rekið bifreið sína utan íhliðstaur í Þingvallasveit og valdið tjóni á bíl sínum með því.

Eldur kom upp í þaki íbúðarhúss í Rangárvallasýslu þann 13. júní.   Brunavarnir Rangárvallasýslu komu á vettvang og rufu þakið og slökktu í glæðum en grunur er um að eldsupptök megi rekja til frágangs við reykrör frá kamínu.   Málið er í rannsókn.

5 bókanir eru vegna dýrahalds.   Í tveimur tilvikum er ekið á sauðfénað við veg en hinar þrjár fjalla um lausagöngu hesta eða sauðfjár við vegi í umdæminu.

Þrjú mál eru til rannsóknar eftir liðna viku er varða meint heimilisofbeldi.

Tvö mannslát utan sjúkrastofnunar eru til rannsóknar og er beðið niðurstöðu krufningar í báðum málunum Eins og kunnugt er þarf lögregla að koma að þegar andlát verður utan sjúkrastofnunar og er lögskipað um að þau skuli rannsökuð til að leiða í ljós dánarorsök viðkomandi.