10 Nóvember 2020 12:15

Ísland er annað tveggja landa í heiminum þar sem Covid faraldurinn er á niðurleið. Þú skiptir máli. Það sem þú gerir skiptir máli. Höldum „dampi“ í baráttunni. Ekki gefast upp áður en komið er í mark.

Árangurinn af því hvernig okkur gengur að ná niður þriðju bylgjunni af veirunni víðfrægu er að koma í ljós.   Hann næst með því að allir standi saman og vandi sig. Þríeikið okkar, og allt starfsfólkið í kring um þau, stendur sig afburða vel. Á endanum veltur þetta allt á því hvað þú gerir.  Mestu skipta persónulegar varnir, handþvottur og sprittun.   Núna er að halda haus og þar með árangrinum sem virðist í sjónmáli.   Aftur veltur það á einstaklingunum sjálfum.   Hjálpumst að og göngum þannig um að við sjáum inn í aðventuna í aðstæðum sem gefa okkur færi á að halda hátíð í öllum skilningi þess orðs.

Ökumaður fólksbifreiðar sem stöðvaður var við venjubundið eftirlit á Suðurlandsvegi að kvöldi 3 nóvember er grunaður um að hafa ekið bifreið sinni undir áhrifum fíkniefna. Deginum áður var annar ökumaður fólksbifreiðar á leið um Suðurlandsveg sem höfð voru afskipti af færður til blóðsýnatöku eftir að hafa svarað jákvætt í öndunarprófi fyrir áfengi.     Hann reyndist jafnframt vera að aka sviptur ökurétti.

Dráttarbifreið með 5 tonna beltagröfu á trailervagni var kyrrsett þar sem lögreglumenn höfðu afskipti af ökumanni hennar og honum gert að festa vélina á vagninn áður en hann héldi áfram för sinni um uppsveitir Árnessýslu þann 4. nóvember s.l.    15 önnur stór ökutæki voru skoðuð s.k. 2vegaskoðun“ og reyndist ástand þeirra almennt gott en í einu tilfelli var gerð athugasemd við ljósabúnað annarsvegar og ástand eins hjólbarða hinsvegar.

31 ökumaður var kærður fyrir að aka of hratt í liðinni viku. Tveir þessara ökumanna mældust á 135 km/klst hraða á Mýrdalssandi þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst. Einn þeirra mældist á 120 km/klst hraða á vegakafla Suðurlandsvegar við Kotströnd þar sem leyfður hraði hefur verið lækkaður í 70 km/klst vegna vegaframkvæmda og einn mældist á 34 km/klst hraða á vistgötu á Selfossi þar sem hámarkshraði er skv. merkingu 15 km/klst.   Ekki hár hraði allajafna en samt sem áður rúmlega tvöfaldur leyfður hraði skv. merkingum og takmörkunin sett á þar sem að gatan er almennt ætluð gangandi umferð eins og gildir um vistgötur.   Rétt er að benda á að skv. nýjum umferðarlögum, 9. gr. er hámarkshraði á vistgötum nú 10 km/klst.

Lögreglumenn hafa farið margar ferðir á veitingastaði, verslanir og sjoppur til eftirlits með því að sóttvörnum sé fylgt. Í langflestum tilfellum hafa þessir hlutir verið í lagi en samtalið er af hinu góða og vænlegt til árangurs að fara yfir hlutina saman og velta fyrir sér hvað betur megi fara.