12 Apríl 2021 10:28
Þrír ökumenn sem lögregla hafði afskipti af á Suðurlandi í liðinni viku eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum ölvaðir. Tveir þeirra í Sveitarfélaginu Hornafjörður en einn í Árnessýslu.
45 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu, 32 þeirra í Árnessýslu, 9 í V-Skaftafellssýslu og 4 í Rangárvallasýslu. 16 þessara ökumanna eru meira en 30 km/klst yfir leyfðum hraða og sá sem hraðast ók var á 138 km/klst hraða á vegi þar sem leyfður hraði er 90 km/klst.
3 ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða sinna í umdæminu. 40 þúsund króna sekt við slíku broti svona svo því sé haldið til haga.
Erlendum ferðamanni sem hugðist leggja bifreið sinni í stæði við húsvegg hótels síns í Vestur Skaftafellssýslu fipaðist við það og steig á bensíngjöf en ekki bremsu. Bíllinn lenti á húsveggnum og rúða brotnaði auk þess sem klæðning skemmdist. Ekki urðu slys á fólki. Þrjú önnur umferðarslys voru tilkynnt í liðinni viku öll án alvarlegra meiðsla.
Tvö slys voru tilkynnt þar sem hestamenn duttu af baki. Í öðru tilfellinu er um að ræða áverka á höfði og baki en í hinu á fæti. Í báðum tilfellum voru hestamennirnir fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar.
Sina brann á allstóru svæði í A-Skaftafellssýslu þann 5. apríl s.l. Upptök eldsins reyndust vera frá ruslabrennu bónda en hvorutveggja er óheimilit, að brenna rusli og að brenna sinu. Málið fer áfram til ákæruvalds til meðferðar.
Tvö andlát í heimahúsi eru til rannsóknar eftir vikuna. Um þessi verkefni er jafnan lítið getið í upplýsingagjöf lögreglu en lögreglu er skylt að rannsaka andlát utan sjúkrastofnana og felur sú rannsókn að jafnaði í sér vettvangsskoðun og líkskoðun ásamt réttarkrufningu til að komast að því með óyggjandi hætti hvert banamein viðkomandi var. Alls hafa 9 slík mál komið inn á borð lögreglu frá áramótum og er það í samræmi við fjölda fyrri ára.
Eitt mál er varðar heimilisofbeldi kom upp í liðinni viku og er nú í vinnslu rannsóknardeildar.
Við erum enn að fást við Covid og brýnt að standa sig hvað persónulegar sóttvarnir varðar. Sýnatökur eru á vegum heilbrigðisstofnana í umdæminu á hverjum degi eftir þeirra skipulagi og allir sem finna fyrir einkennum hvattir til að láta taka sýni hjá sér. Í þessu þarf hver og einn að taka ábyrgð á sjálfum sér. Nokkurrar óþolinmæði gætir orðið nú þegar bólusetningar eru komnar vel af stað en enn sem fyrr er árangurinn fyrst og fremst undir því kominn að hver og einn gæti að sínu og sýni metnað hvað það varðar. Lögreglan hefur aðstoðað við sýnaflutning frá heilsugæslum í umdæminu og í rannsóknarstofu eftir því sem þörf er á og 6 slík verkefni eru bókuð hjá okkur í liðinni viku en í flestum tilfellum sér viðkomandi heilsugæsla um slíkt sjálf. Þá hefur lögreglan sinnt eftirliti á veitinga og gististöðvum um umdæmið auk þess sem brugðist hefur verið við tilkynningum þar sem grunur leikur á að sóttvarnarreglur séu brotnar. Í einu slíku tilviki tilkynnti starfsmaður á bensínstöð um erlendan mann, sem hann taldi ferðamann, sem ekki fékkst til að setja upp grímu og var vikið út af staðnum vegna þess. Lögreglumenn fóru á vettvang en maðurinn þá farinn. Athugun lögreglu leiddi í ljós að maðurinn var a.m.k. ekki á meðal þeirra sem skráðir voru í sóttkví á þessum tíma.