5 Febrúar 2018 10:54

Í liðinni viku voru tveir ökumenn handteknir grunaðir um að aka ölvaðir í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Annar innanbæjar á Hvolsvelli aðfaranótt s.l. sunnudags en hinn að kvöldi mánudagsins 29. janúar.  Sá hafði ekið utan í 2 bifreiðar á Ölfusárbrú og haldið áfram eftir það áleiðis út af brúnni en skilið eftir tvær skemmdar bifreiðar þar, aðra óökuhæfa.   Nokkurn tíma tók að vinna vettvangsrannsókn og rýma brúna og var hún því lokuð fyrir umferð á meðan.   Ekki urðu alvarleg slys á fólki en ökumaðurinn sem slysinu olli var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík til aðhlynningar.

25 umferðaróhöpp voru tilkynnt í liðinni viku. Í einu þeirra, bílveltu á Mýrdalssandi, austan Hjörleifshöfða, slösuðust 2 ferðamenn og voru fluttir með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík.   Skoðun þar leiddi í ljós að áverkar þeirra voru ekki alvarlegir.   Þá slasaðist ökumaður bifreiðar á Suðurlandsvegi við Hellisheiðarvirkjun alvarlega þann 1. febrúar s.l. kl. 13:30 en hann hugðist draga bifreið sem hann kom að úr festu í snjó.  Skafbylur var og kóf og ekki vildi betur til en svo að þriðju bifreiðinni var ekið aftan á þá sem sat föst sem kastaðist við  það áfram og klemmdi þann sem hugðist aðstoða, á milli bifreiðanna.  Hann mun m.a. hafa hlotið opið lærbrot við slysið.  Veginum var lokað vegna veðurs og aðstæðna síðar sama dag og þurftu björgunarsveitarmenn úr Reykjavík og úr Árnessýslu að vinna fram á kvöld við að aðstoða fólk vegna ófærðarinnar.

11 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku. Sá sem hraðast ók reyndist á 139 km/klst hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst.  Sá lauk máli sínu með greiðslu sektar á vettvangi brots,  90.000.- krónur en fékk, líkt og aðrir vildarviðskiptamenn lögreglu 25% afslátt og útlagður kostnaður var því 67.500 krónur.

Skráningarnúmer voru tekin af þremur ökutækjum sem reyndust ótryggð í umferðinni.

Lögreglumenn á Kirkjubæjarklaustri könnuðu sérstaklega notkun öryggisbelta í tveimur skólabifreiðum barna í grunnskólanum þar áður en ekið var frá skólanum. Í annarri bifreiðinni voru allir í beltum en í hinni þurfti hvatningu til viðbótar við áherslu bílstjórans. Á sama hátt hafa lögreglumenn víðar um umdæmið verið að stöðva hópbifreiðar og gera athugun á notkun öryggisbelta í þeim enda til mikils að vinna því það er löngu ljóst að þrátt fyrir að bílar séu stórir getur fólk slasast alvarlega í umferðaróhappi og enn meir ef öryggisbelti eru ekki notuð.

Tilkynnt var um kött uppi í háu grenitré við Sólvelli á Selfossi þann 3. febrúar.   Af bókun lögreglu verður ráðið að kisi hafi komið sér niður af sjálfsdáðum og án aðkomu lögreglu, líklega af þekktu klifurkattakyni.