7 Júní 2022 12:18

3 ökumenn sem lögregla hafði afskipti af í liðinni viku eru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna eða lyfja.  Einn þeirra er jafnframt grunaður um að hafa verið ölvaður við aksturinn sem endaði með veltu á Auðsholtsvegi í uppsveitum Árnessýslu.  Ökumaðurinn fluttur á sjúkrahús í Reykjavík þar sem gert var að sárum hans.  3 aðrir ökumenn sem höfð voru afskipti af eru einnig grunaðir um ölvun við akstur og að auki fær einn þeirra væntanlega sekt vegna aksturs á 4 negldum hjólbörðum.

4 aðrir ökumenn voru kærðir fyrir að aka bifreiðum á negldum hjólbörðum í umdæminu í liðinni viku.

3 ökumenn voru kærðir fyrir að aka bifreiðum sínum sviptir ökurétti.  2 fyrir að aka með útrunnin ökuréttindi og 2 fyrir að aka stórum bílum,  í atvinnuskyni, án ökumannskorts.

7 ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða sinna.

57 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku.  Af þeim voru 9 í Sveitarfélaginu Hornafirði, 17 í Skaftár- og Mýrdalshreppum og restin vestar.

Vigtun vöruflutningabíls á leið úr námu í Ingólfsfjalli að losunarstað á Selfossi leiddi í ljós að bíllinn var 4200 kg yfir leyfðri ásþyngd.   Stutt í losunarstað og leyft að ljúka ferð en fær sekt fyrir brotið.

Samanlagðar álagðar sektir vegna umferðarlagabrota í liðinni viku,  þeirra sem ljúka má með greiðsluseðli, nema um 5,5 milljónum króna.  Sé greiðsluseðillinn greiddur innan 30 daga fæst 25% afsláttur af sektinni.

8 umferðarslys/óhöpp voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku.  Af þeim 4 með meiðslum.   Ökumaður mótorhjóls  á leið yfir vað á Gjábakkavegi þann 30. maí s.l. féll af hjólinu og var fluttur til aðhlynningar á sjúkrahús í Reykjavík en var ekki talinn alvarlega slasaður.  Þá féll ölvaður maður af hlaupahjóli á Selfossi þann 4. júní og slasaðist við það. Einn slasaðist þegar bifreið var ekið af Kiðjabergsvegi í veg fyrir aðra á Biskupstungnabraut þann 4. júní.  Um fjórða slysið var svo skráð hér á ofan í kaflanum um ölvunaraksturinn.

6 mál eru bókuð hjá lögreglu þar sem ekið hefur verið á sauðfé á  vegi.  Flest eru málin í Sveitarfélaginu Hornafirði en þó 1 mál í Rangárþingi.

Lögreglumenn sem fóru til birtingar skjala á heimili í Rangárþingi í liðinni viku brugðust við megnri kannabis lykt sem tók á móti þeim þegar útidyr bæjarins voru opnaðar.   Í ljós kom að heimilisfólk var þar að rækta kannabisplöntur í sérstöku rými sem hafði verið útbúið til slíks.   Hald lagt á búnað og plöntur og húsráðendur fluttir á Selfoss hvar teknar voru skýrslur af þeim en síðan sleppt.